29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

46. mál, lækningaleyfi

Hannes Hafstein:

Eg veit ekki, hvort háttv. þm. hafa tekið eftir hvað liggur í þessu ákvæði, að engir skottulæknar megi kalla sig lækna, nema smáskamtalæknar. Þetta virðist vera gert til óvirðingar við lækningaaðferðina sjálfa, líkt og sagt væri, að sama sé hverju megin hryggjar smáskamtalæknar liggi, þeir geri hvorki til né frá. En eg hygg að sjálf lækningaaðferðin geti haft sitt gildi, ef mentaðir læknar fari með, en skottulæknar í smáskömtum geti — að minsta kosti óbeinlínis — gert tjón eins og aðrir þeir, er hamla sjúklingum frá að leita lærðs læknis þar til það er orðið um seinan.

Eg hefi heyrt lagða áherzlu á það, að við sem samþyktum frv. seinast greiddum atkvæði ofan í okkur sjálfa, ef við samþyktum tillögu hv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.), en því fer afar fjarri. Eg verð að lýsa því yfir, að eg greiddi síðast atkv. með greininni eins og hún var, af því annars var ekki kostur. En nú er till. hv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) er fram komin, greiði eg henni atkvæði, af því að hún er til bóta og vona að hin háttv. þingdeild samþykki þá breytingartill. Um landlækni er mér kunnugt, að hann taldi frumvarpið ómynd, eins og það kom frá nefndinni, en taldi þó betra að fá það heldur en ekkert, ef ekki væri annars kostur.