28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

46. mál, lækningaleyfi

Björn Kristjánsson:

Háttv. þm. Dal. (B. J.) viðhafði gífuryrði um smáskamtalækna, og sagði að allra landa löggjöf væri þeim á móti. Hann hlýtur þó að þekkja, að á Þýzkalandi eru mörg homöopatisk apotek, og í Kaupmannahöfn hefir bann gengið fram hjá einu þeirra ár eftir ár, sem einungis verzlar með homöopatisk meðul. Það er fullkomlega viðurkend lækningaaðferð. Þá sagði hann, að ekki væri bannað að veita hjálp, en það er sama sem bannað eftir frumvarpinu, þar sem menn geta ekki brúkað meðul án leyfis landlæknis. Sömuleiðis sagði hann að menn gætu eins leitað lærðra lækna sem ólærðra, en vitanlega geta menn ekki fært traust á einum yfir á annan, heldur fer maður til þess, sem maður treystir. Eg er ekki viss um, að þó það takist að útrýma homöopötum, að sannfæring þjóðarinnar breytist fyrir það. Einmitt á þessu þingi hafa verið veittar 300 kr. til styrktar skottulækninga á vissum stað í landinu, ekki reyndar til skottulæknisins sjálfs, heldur til hreppsnefndarinnar, sem er að eins krókaleið til að dylja að verið sé að styrkja skottulækni.

Eg verð að álíta að ekki sé létt af háttv. nefndarmönnum að greiða ekki atkvæði. Þeir hljóta að skoða sig bundna við það, sem varð að samkomulagi í nefndinni og það var einmitt þetta, að fara alls ekki lengra.