11.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1314 í B-deild Alþingistíðinda. (1599)

70. mál, forgangsréttur kandídata

Flutningsm. (Jón Þorkelsson):

Svo sem kunnugt er, voru á síðasta þingi samþykt lög um að setja á stofn háskóla á Íslandi, en þar var ekki ákveðið, hver vera skyldi réttur þeirra manna, sem leysa hér próf af hendi, gagnvart mönnum frá öðrum háskólum. Bar eg því á síðasta þingi fram tillögu um háskólamálefni, og var fyrri liður hennar um þetta atriði, en hinn síðari liður að nokkuð af fjárstyrk þeim, sem Íslendingar hafa hingað til notið af »communitetinu«, yrði lagt hingað til háskólans. Fyrri liðurinn var feldur, hinn seinni samþyktur, en ekki veit eg þó til, að neinn árangur hafi orðið af því. — Þetta mál er svo áríðandi, að mér kemur ekki til hugar að greiða atkvæði með fjárveitingu til háskóla, fyr en það er skorðað með lögum, að menn frá öðrum háskólum séu ekki jafn réttháir hér á landi háskólagengnum mönnum héðan. Vér settum prestaskólann á stofn 1847, en höfum þó jafnan látið guðfræðinga frá háskólanum í Khöfn ganga fyrir prestaskólakandídötum, og þannig löghelgað háskóla í öðru landi samkepni við vora eigin stofnun. Frv. þetta á að girða fyrir, að menn annars staðar frá, sérstaklega frá háskólanum í Kaupmannahöfn, geti, mér liggur við að segja, vaðið yfir landið, enda væri fyllilega tilgangslaust að stofna hér háskóla, ef menn, sem leyst hafa próf af hendi annars staðar, ættu að hafa skorðulausan forgangsrétt fyrir vorum mönnum eða fult jafnrétti við þá. Þó hefir þótt hlýða að hafa nokkur önnur ákvæði um lækna en aðra, því að læknisfræðin er svo almenn vísindagrein, að sjálfsagt er að hafna ekki orðalaust þeim, er stunda hana þar, sem hún er bezt kend í það og það sinn, enda liggur svo mikið við, að læknar séu fullkomnir í list sinni, að nauðsyn er að sæta hinum beztu kröftum sem bjóðast. Í lögum lagaskólans er fastlega svo fyrirmælt, að engir skuli gildir til lögfræðislegra embætta hér á landi, nema þeir, sem hafi tekið próf við hann, og er það hið þarfasta ákvæði, því að þótt löggjöf vor í margri grein hafi »dependerað af þeim dönsku«, þá er þó margt sérkennilegt og ramíslenzkt í lögum vorum. En hingað til hafa flestir háskólakandídatar verið svo ófróðir í íslenzkri löggjöf, að margur hreppstjórinn hefir þar verið þeim snjallari og er slíkt ekki vansalaust.

Um guðfræðina er óþarft að tala — »víðar er guð en í Görðum«, og mun eigi síður mega stunda það nám hér en annars staðar.

Skal svo eigi orðlengt framar um þetta mál, en vera má, að rétt sé, að frumv. með þeim orðum og endimörkum, sem það nú hefir, verði athugað af 5 manna nefnd. Hygg eg að allir skynbærir menn muni veita frumv. fylgi sitt.