10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

67. mál, réttur kvenna

Flutningsmaður (Hannes Hafstein):

Eg ætla mér ekki að halda neina kvenfrelsisræðu eða kvenréttindar fyrirlestur til rökstuðnings frv. þessu. Kvenréttindamálinu er nú, sem betur fer, svo komið vor á meðal, að þeir munu fáir hér á þingi, sem treysti sér til að verja þau ákvæði gildandi laga, að konur geti ekki fengið námsstyrk af opinberu fé og að þær hafi ekki rétt til embætta, þó að þær styrklaust hafi lokið prófi. Þetta stendur í tilskipuninni 4. desbr. 1886, sem veitti konum rétt til að ganga undir próf lærða skólans, læknaskólans og að nokkru leyti við prestaskólann, og þótti þá mikil réttarbót. Nú hljóta allir að kannast við, að þetta er að eins hálfgert verk, sem tími er kominn til að ljúka við. Þeir, sem eru því hlyntir að veita konum öll stjórnmálaréttindi — og þeir vona eg að séu margir hér í deildinni — hljóta að veita þessu frv. stuðning, því að það er miklu varhugaverðara að hleypa öllu kvenfólki í einu í kjósendatölu undirbúningslaust, án tillits til manngildis, þekkingar og áhuga, heldur en að veita konum, sem hafa lokið námi því, sem útheimtist til embætta, jafnrétti við karlmenn til þess að færa sér nám sitt og þekkingu í nyt, með sömu skyldum og skilmálum. Eg get ekki séð, að nein hætta geti staðið af því. Það er ekki bannað í núgildandi löggjöf, að kvenfólkið vinni alla stritvinnu eins og karlmenn, og margur kvenmað­urinn gerir það einnig, en samt sem áður fæst þó kvenfólkið aðallega við kven­leg störf, og eins mundi fara, þótt þetta frumv. yrði samþykt, — það yrði að eins einstaka kvenmaður, sem notaði sér rétt þann, er það heimilar, en allur þorri kvenna mundi ganga sömu leið, sem hingað til. Náttúran segir til sín.

Ekki get eg heldur séð, að það sé gild mótbára móti frumv., þótt konur geti ekki jafnvel stundað öll embætti sem karlmenn, því að væntanlega finna konurnar það sjálfar, hvað þeim er megnugt, og sækjast ekki eftir störfum, sem þær, líkamskrafta vegna, geta ekki rækt, enda getur þá veitingarvaldið grip­ið í taumana. Og það væri allsendis rangt að neita þeim um námsstyrk fyrir þá sök, að þær mundu ekki jafnmikið og karlmenn nota lærdómspróf sín til embætta, því að sjálfmentunin er til blessunar og getur komið að notum við margt annað en embættisstörf. Eg vona því, að frumv. fái góðan byr og verði að lögum, er sem flestir mættu gott af hljóta. Í öllu falli er það víst, að þessi lög mundu gera gagn með því að draga úr óánægju kvenna út af réttarstöðu þeirra í þjóðfélaginu, og þannig gera þjóðfélagslífið ánægjulegra og betra.