22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Lárus H. Bjarnason:

Eg leiði alveg hest minn frá því að kenna hæstv. ráðherra að þekkja á mér númerið, sem hann kallar svo, enda gerist hann nú gamall og ilt að kenna gömlum manni að læra. En eitt er víst, og það er það, að númerinu á honum í ráðherraembættinu mun þjóðin seint gleyma.

Og skal eg svo snúa mér að efnisatriðunum. Hæstv. ráðherra vill nú halda því fram, að afsetning gæzlustjóranna 22. nóv. 1909 hafi átt að vera um stundarsakir. En hér rekst ráðherra óheppilega á sjálfan sig, því að samkv. landsyfirréttardómi frá 25. apríl 1910 í máli, sem ráðherra og bankastjórarnir, Björn Kristjánsson og Björn Sigurðsson fyrir hönd Landsbankans, áttu í við annan gæzlustjórann, hv. þm. Borgf., er það haft eftir ráðherra, að gæzlustjóranum „hafi verið vikið frá gæzlustjórastarfinu til fullnaðar með stjórnarráðstöfuninni 22. nóv. f. á.“ Og líkt er tekið til orða í öðrum landsyfirréttardómi frá 11. júlí 1910. Ráðherra er þannig orðin tvísaga og kemur það nú reyndar ekkert flatt upp á mig, því í öðru máli, hinu svonefnda lygaskeytamáli, lætur hv. ráðh. son sinn segja í sóknarskjali 27. jan. 1910:

„Umbjóðandi minn hefir aldrei fyrirskipað stjórnarskrifstofunni í Khöfn að senda út hina tilfærðu frétt (o. fregnina um „stórfögnuðinn ráðherra til handa“ við mótmælaförina til ráðherra 26. nóv. 1909) eða neitt henni líkt, og aldrei tjáð greindri skrifstofu neitt þessu líkt.“ En hvað segir hann svo í sóknarskjali 12. maí 1910? Þá segir hann: Umbjóðandi minn hefir símað til stjórnarráðsskrifstofunnar í Kaupmannahöfn, að honum hafi verið sýndur mikill fagnaður umræddan dag“. Þetta stendur, svo samstætt sem það er eða hitt þó heldur, í staðfestum útdrætti úr sóknarskjölunum, sem eg held á.

Fyrst snýr hann upp á sig, og svo snýr hann ofan af sér aftur. Eg leyfi mér að minna hæstv. ráðherra á að gæta þess betur framvegis, hve áríðandi það er að muna, hvað menn hafa lagt til málanna áður.

(Ráðherra: Eg tek engum ráðum frá þessum manni.)

Hæstv. ráðherra ætti að kunna að þiggja holl ráð, hvaðan sem koma. Hv. ráðh. lét sér nægja að endurtaka hvað eftir annað, að hinir sundurliðuðu, rökstuddu ákærupóstar mínir í bankamálinu væru ósannir og s. frv., en leitaðist ekki við að færa orðum sínum neinn stað. Og það er vandalítið og fremur við hæfi barna en fullorðinna manna. Þannig endurtók hv. ráðh., að óleyfilegt væri að veðsetja varasjóð, enda þó að eg hafi endur fyrir löngu bent honum á 7. gr. í bankalögunum frá 18. sept. 1885, sem beint heimilar þetta. Hann getur fengið lögin hjá mér, ef hann vill. Hv. ráðherra sagði að rannsóknarnefndin hefði sagt sér hitt og þetta fleira en komið var fram í dagsins ljós 22. nóv. og á því hefir ráðh. svo náttúrlega bygt; hann hefir þann stóra ókost, að trúa öllu, sem í hann er látið, hversu ótrúlegt sem er, eins og þegar drengurinn taldi honum trú um að Andersen hefði hlaupið í handlegginn á sér og skrifað bók. Ráðh. gaf bókina út. Eins trúði hann því, þegar honum var sagt að dauður læknir hefði skorið krabbamein úr manni og fleygt því í ofninn. Slík trúgirni er háskalegur galli á manni í ábyrgðarstöðu.

Hv. ráðherra hafði það eftir erlendu bankastjórunum að Landmandsbanken mundi segja upp sambandinu við Landsbankann, ef gæzlustjórunum yrði hleypt að enda þóttist hann hafa hætt við það fyrir þá sök. Getur verið að þeir hafi sagt það, sem hann hefir eftir þeim. En hitt gæti líka verið, að það líktist eitthvað söguburði Ísafoldar um „uppljóstranina“ á skeytunum frá bankamönnunum, sem eg get sannað, að ráðherra sjálfur smíðaði En þó að dönsku bankamennirnir hefðu sagt það sem ráðherra hefir eftir þeim, þá skiftir það ekki máli. Það hefði ekki verið annað en spá þeirra. Ráðherra hefði átt að spyrja stjórn Landmandsbanken um það, hvað satt væri í þessu? Hann hefði átt að geta það þessa fjóra mánuði eða hvað það nú var, sem hann sat hjá dönsku mömmu.

Þetta sem hann hefir eftir dönsku bankastjórunum er því ekki annað en nokkurskonar Gróuleitissögur.

Hæstv. ráðh. kannaðist við ummæli þau sem eg vitnaði til í Ísafoldargreininni um gæzlustjórana, að þeir væru valinkunnir sómamenn, og er þá ekkert líklegra en að hann eigi greinina eins og hún leggur sig, enda segir sagan, að hann eigi fleiri greinar í því blaði en nafn hans stendur undir.

Hæstv. ráðherra var að spá því, að hann hefði traust deildarinnar og ætlast þá líklega til að tillögu minni verði snúið upp í traustsyfirlýsingu, en ætlist hann til þess, held eg að honum væri bezt að bera þá slíka tillögu upp sjálfur.

Þá mintist hv. ráðh. á silfurbergið og sagði að Guðm. Jak. hefði átt heimtingu á því að fá samþykki til framsalsins, en þar var ráðh. aptur óheppinn, því að í 12. gr. stendur að „leigjandi megi ekki framselja rétt sinn eftir samningi þessum öðruvísi en með samþykki landstjórnarinnar“. Þetta stendur þar með hendi ráðh. og samningurinn er undirskrifaður með hans eigin hendi. En það er sagt, að sonur ráðherrans hafi verið í félaginu um að taka silfurbergsnámurnar á leigu og að sonurinn hafi samið við föðurinn og því hafi leigjendurnir fengið framsalið afgjaldslaust.

Annars kom hæstv. ráðherra ekki fram með neinar varnir, hvorki í Thoremálinu, um viðskiftaráðunautinn, né heldur um síldarmatsmanninn. Ekkert annað en bláberar neitanir og slettur. Áður en eg sezt niður, leyfi eg mér að spyrja hv. ráðh. hvort satt sé sem sagt er, að búið sé að

selja silfurberg upp úr Helgustaðanámunni fyrir rúmar kr. 100,000, en að landsjóður hafi ekki fengið nema tæpar kr. 20,000. Landsjóður átti þó samkvæmt samningum að fá 55% að frádregnum 3% fyrir flutningskostnaði, geymslukostnaði, vátryggingu og s. frv.