10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (1611)

67. mál, réttur kvenna

Björn Sigfússon:

Eg álít sjálf­sagt, að frumvarp þetta verði að lögum og er í rauninni óþarft að skipa nefnd í svo einfalt mál. Frumvarp þetta hefði átt að vera borið upp á þingi fyrir löngu; ekkert er að óttast, þótt það verði að lögum, sízt það, að embætti landsins muni fyllast af kvenfólki, því að í bráð­ina munu þær lítið nota rétt sinn til embættanna, þó að þær noti námsstyrkinn.

Út af mótbáru þeirri, sem háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) hreyfði, skal eg geta þess, að karlmenn eru ekki, fremur en konur, vátrygðir fyrir sjúkdómum, lækn­irinn getur fengið gigt, sýslumaðurinn lungnabólgu o. s. frv. Hinu geri eg mér engar grýlur úr, þótt konur geti lagst á sæng, þau forföll koma ekki að mönnum óvörum og getur tæpast orðið eins bagalegt, eins og þeir sjúkdómar, sem enginn getur séð fyrir. Eg mun greiða frumvarpinu hiklaust atkvæði mitt, en ef mönnum sýnist réttara að það sé athugað í nefnd, vil eg stinga upp á, að kosin sé 5 manna nefnd.