13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1334 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

67. mál, réttur kvenna

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Háttv. þm. Dal. (B. J.) sneri dálítið út úr fyrir mér í ræðu sinni, er hann dró þá álykt­un út af því, að eg hefði sagt, að mæð­urnar ættu að vera mæður barna sinna, að eg meinti ef til vill þar með, að feð­urnir ættu ekki líka að vera feður barna sinna. Jú, auðvitað hvílir sama skylda á þeim, en hitt er víst, að móðirin er mikið færari um að annast barnið frá vöggunni og það er ei lítið undir þeirri leiðbeiningu komið, sem það fær hjá henni, frá því það er komið til vits og ára og áfram. Hið almenna er, að fað­irinn gefur barninu mikið minni gaum. Móðureyrað er næmara en föðureyrað. Þá kem eg að hinu, að það á að draga úr hættunni, sem því fylgir, að konur fái þennan rétt, með því að athuga í hvert skifti hvort konan sé nógu sterk­bygð til að takast embættið á hendur. Í fyrsta lagi er þetta nú ofan í allar gild­andi venjur, því að altaf hefir hingaðtil að eins verið farið eftir andlegum hæfileikum, eftir því hver umsækjandi hafi haft hærra próf, og í öðru lagi er ekki gott að dæma um, hve sterkbygð konan er og hvernig heilsu hennar verði varið, þegar hún tekur þessar skyldur sér á herðar. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) talaði af nokkrum hita í þessu máli. Hann sagði, að hér væri aðeins um heim­ild að ræða. Það er mikið rétt, en þessi heimild til embætta getur haft vondar afleiðingar, því sennilegt er, að konur fari að nota hana. Og til sveita kynni það einkum að hafa vond eftirköst, ef konan notaði þennan rétt sinn, því að þar er sú venja, að hún annast sjálf uppeldi barna sinna, en hefir ekki barn­fóstrur. Og hvað heimilin mistu við, ef þessu væri hætt, verður ekki lýst. Ef til vill eru konur hér í Rvík upp úr því vaxnar og fóstra sjálfar börnin sín og breytir það málinu kannske dálítið, en hvað sem því líður, hlýt eg að vera frumv. algerlega mótfallinn.