13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1621)

67. mál, réttur kvenna

Bjarni Jónsson:

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði, að eg hefði verið að tala fyrir fólkið. En hafi nokkur gert það, þá hefir það verið hann, því að hann talaði út í hött. Háttv. þm. talaði um, að eg vildi víkka verkahring kven­fólksins. En það er ósatt, því hér er alls ekki að ræða um slíkt, heldur að eins það, að veita kvenfólkinu réttindi, sem því er heimilt að færa sér í nyt, ef það á annað borð getur. Það er ekki verið að tala um að skylda það til neins. Eg tók þetta skýrt fram og háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sömuleiðis.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði, að kvenfólkið mundi leggjast frá heimilum sínum, ef því yrði veitt réttindi. Og háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) talaði mik­ið um barnauppeldi, og áleit hann, að kvenfólkið mundi hætta að ala upp börn, ef það fengi réttindi. En allir vita, að til eru sannar sögur um að

Út á sjóinn ötul rær

ein á báti kona,

bóndinn heima bætir og þvær,

búa fáir svona.

Því má kvenmaðurinn ekki vera formaður, en karlmaðurinn sitja heima og bæta flík, ef svo ber undir? Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) sagði, að það væri of stórt stig að veita kvenfólkinu í einu öll þau réttindi, er frumv. kveður á um. En honum er óhætt að stíga það meyj­arstig; ekkert slitnar fyrir því.