22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

67. mál, réttur kvenna

Flutningsmaður (Hannes Hafstein):

Háttv. Ed. hefir ekki gert neinar aðrar breytingar á frumv. en að breyta orðinu »karlmenn« í »karlar«. Aðrar breytingartillögur, sem nefndin í Ed. stakk upp á, voru feldar, þar á meðal sú tillaga nefndarinnar, að undanskilja prestsembætti í greininni um rétt kvenna til embætta. Það má ganga út frá því sem vísu, að háttv. nefnd, sem skipuð var gætnum og greindum mönnum, og hafði að minsta kosti einn kirkjunnar mann sín á meðal, hafi rannsakað nákvæmlega málavöxtu, áður en hún gerði þessa tillögu, og að hún í nefndaráliti sínu hafi komið fram með allar ástæður, sem hún hafði fyrir henni. En hún hefir ekki fundið neitt í reglum hinnar evangelisk-lútersku kirkju né í hlutarins eðli, sem sé á móti því, að kvenmenn séu prestar. Hún segir að eins, að það »kunni að vera á móti almennings álitinu«. Ef nefndinni hefði fundist það vera á móti lögum þjóð­kirkjunnar þá hefðu henni ekki farist þannig orð. Eg vil, með leyfi háttv. forseta, leyfa mér að lesa hér upp úr nefndarálitinu það er að þessu lýtur. Þar stendur:

»Nefndin getur ekki séð neinar verulegar ástæður, er á móti því mæli, að konum veitist réttur til embættisstarfa með sömu skilyrðum og körlum. Þó er nefndin sem heild í nokkrum vafa um, hvort rétt sé að veita konum aðgang að prestsembættum. Það stafar þó ekki af því, að nefndin efist um hæfileika kvenna í þessa átt, heldur eingöngu af ótta fyrir því, að af þeirri nýbreytni kynni að rísa óþarfa ágrein­ingur meðal þjóðarinnar. Og með því nefndin telur líklegt, að eigi muni margar konur æskja þess að verða prestar, þá telur hún það þýðingarlítinn réttindamissi fyrir konur, þó þessi undantekning sé gerð«.

Með því að nefna hér »réttindamissi« viðurkennir nefndin óbeinlínis, að í raun­inni eigi konur einnig rétt til embætta í þjóðkirkjunni, enda vildi deildin ekki fallast á tillöguna, og lét konur halda þessum rétti, sem háttv. Nd. áður var búin að játa þeim til handa. Eg tel það alveg víst, að þessi háttv. deild sé enn sömu skoðunar og fyr um þetta.

Það væri fróðlegt að heyra skoðun hv. presta hér í deildinni um þetta atriði.