22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Kristján Jónsson:

Eg býst við að engan furði, þó eg taki til máls, svo skylt sem málið er mér. Fyrst skal eg gera stutta athugasemd um afstöðu mína við atkvæðagreiðslu þá er fram mun fara um, tillögurnar. Eins og háttv. deildarmenn mun reka minni til, skrifaði eg deildinni bréf, er eg óskaði að hæstv. forseti læsi upp fyrir deildarmönnum. Hann varð ekki við þessari beiðni minni. En nú hefir framsögumaður þessa máls lesið bréf mitt upp. Eins og háttv. deildarmenn hafa heyrt, þá er það að eins tilkynning um það, hvers vegna eg hefi ekki getað gegnt því starfi við Landsbankann, sem háttv. deild hefir falið mér. Eg hafði búist við að meiri hl. mundi taka þetta mál fyrir þegar í byrjun þingsins. Mér gat ekki hugsast, að hann léti sér lynda að þeim manni, er meiri hl. hefir sjálfur kosið gæzlustjóra, væri meinað að hafa það eftirlit með stjórn Landsbankans, sem honum, var falið með kosningunni. Það er vitanlegt, að deildin hefir ekki í langan tíma haft neinn fulltrúa í stjórn Landsbankans. Eg bjóst því við því, að meiri hl. mundi undir eins á fyrstu fundum taka málið fyrir, og átti eg tal við tvo þingmenn úr meiri hl. og höfðu þeir þá góð orð um að gera það. En þar eð ekki hafa enn orðið neinar framkvæmdir af meiri hl. hálfu, þá kemur minni hl. með þessa till., sem hér liggur fyrir. Þá verður spurningin fyrir mér, hvað eg eigi að gera, og hefi eg afráðið að greiða atkvæði með henni, þó eg hefði fremur viljað og þótt betur fara að slík tillaga um rannsókn á gerðum stjórnarinnar í Landsbankamálinu hefði komið frá meirihlutanum, mínum flokksbræðrum. En eg vona og tel vístr að þessi till. verði til að koma því fram í þessu máli, sem eg óska, verði til að koma lagi á það. Af þessu leiðir, að eg verð að beiðast skriflegrar atkvæðagreiðslu af forseta.

(Lárus H. Bjarnason: Það eru þegar afhentir tveir listar).

Mér virtist eg verða að skýra þegar frá þessu. Þetta er deildarinnar eigið mál. Hér lá sú spurning fyrir, hvort réttur deildarinnar hefði eigi verið fyrir borð borinn, og virðingu hennar misboðið. Mér voru það vonbrigði að meiri hl. tók ekki málið fyrir þegar á fyrsta fundi. Eg hafði búist fastlega við því. — Að því er snertir þá breyttill., sem fram er komin, þá verð eg að lýsa því yfir, að eg get ómögulega verið henni samþykkur. Hún er mér gersamlega ófullnægjandi. Skal eg svo snúa mér að tillögunni sjálfri. Hver þessi önnur fleiri mál eru, sem flutningsmenn höfðu fyrir augum, er þeir sömdu tillöguna, vissi eg ekki fyr en eg heyrði ræðu háttv. aðalflutningsmanns; á þau ætla eg mér ekki að minnast. Eg læt þau liggja milli hluta, en ætla að eins að tala um Landsbankamálið. Eg býst við að geta talað nokkuð á annan veg um það mál en gert hefir verið. Eg ætla að segja frá einstöku dráttum úr sögu þessa máls, eins og þeir hafa grafið sig inn í minni mitt. Eg veit, að eg muni ekki hafa nein áhrif á atkvæðagreiðsluna, en orð mín gætu ef til vill haft nokkur áhrif á það, hvernig hin væntanlega nefnd lítur á málið. Eg fyrir mitt leyti óskaði aldrei eftir neinni rannsóknarnefnd, en úr því nefndin líklega verður kosin, gætu orð mín ef til vill leiðbeint henni í nokkrum atriðum.

Það er þá fyrst frá því að segja, að hæstv. ráðherra kallaði mig á einmæli við sig að morgni dags þ. 26. apríl 1909 eftir flokksfund hér í þinghúsinu, og skýrði hann mér þá frá því, að hann ætlaði að skipa nefnd til að rannsaka hag Landsbankans. Eg spurði hann, hvort hann hefði hugsað málið vel, og áliti brýna þörf á þessu, og kvaðst hann þá vera alráðinn í að gera það. Eg spurði, hvort hann vildi ekki fresta nefndarskipuninni fram yfir þinglok. Eg hræddist að þessi ráðstöfun kynni að baka honum, sem enn var mjög ungur í ráðherrasessi, óþægindi á þinginu. Í grandvaraleysi mínu hugsaði eg þar meira um hann en mig, enda gat mér ekki dottið í hug, að hann sæti á svikráðum við mig. Hann svaraði, að hann gæti ekki frestað málinu, það væri þegar afráðið. Eg lét í ljós við hann, að mér þætti furðulegt að hann skyldi ekki hafa ráðfært sig við mig um þetta, og það því fremur sem eg hafði margoft talað við hann um hag bankans, ef til vill oftar og meira en sumum hafði líkað vel. Þegar eg svo kom ofan í banka sama dag, sá eg á borðinu bréf frá ráðherra. Það var dálítið einkennilegt, að það var alt öðruvísi samið en stjórnarráðsbréf gerast. Það var nefnilega ekki skrifað í stjórnarráðinu. Í þessu bréfi sá eg svo nöfnin á nefndarmönnunum. Um þá skal eg ekki fara neinum niðrandi orðum; einn þeirra var jafnvel aldavinur minn. En svo mikið verð eg þó að láta í ljós, að eg hafði ekki það álit á þeim, að þeir mundu geta leyst sæmilega af hendi það starf, sem þeim var falið. Næsta dag mintist eg á það við hv. ráðherra, að mér væri það vonbrigði, að þessir menn hefðu verið skipaðir í nefndina. Eg spurði hann, því hann hefði ekki valið menn, sem hægt væri að bera fult traust til, sem hefðu það álit að þeim fylgdi „autoritas“. Eg nefndi t. d. landritara og nokkra fleiri menn. Okkur varð sundurorða út úr þessu, sitt leizt hvorum og síðan féll talið niður. Sama dag varð eg var við nokkra ókyrð í Landsbankanum. Hún var lítil í byrjun, en ágerðist er á daginn leið, og næsta dag sá eg að hætta var á ferðum. Viðskiftamenn bankans litu út fyrir að vera búnir að missa traust sitt á bankanum. Þá var það að eg fékk því til leiðar komið á flokksfundi, að flokkurinn neyddi ráðherra til að gefa út yfirlýsinguna, sem lesin var upp í Nd. og fest upp á götuhornum og síðan símuð út um land. Þetta, hvernig eg fékk flokkinn til að kúga ráðherra til að gefa þessa yfirlýsingu og svo auk þess afskifti mín af öðru máli, hefir ráðherra aldrei fyrirgefið mér, og hefir það líklega ráðið því, hvernig hann fór að við mig. Þessi yfirlýsing kom að miklu gagni, en samt sem áður var hræðslan um bankann orðin svo mikil, að c. 80 þús. kr. voru teknar út úr bankanum fram yfir það vanalega. Ráðherra hefir borið það á bankastjórnina, að hún hafi átt þátt í því að svo mikið var tekið út. Þetta eru ósannindi. Eg fyrir mitt leyti var svo mikið í bankanum þessa daga, sem mér var mögulegt. Eg gekk þar um og talaði við menn í þeim tilgangi að fá þá til að hætta við að taka fé sitt úr bankanum, og gerðu margir það fyrir mín orð. Meðal annars hitti eg þar tvo menn, sem áttu hvor um sig yfir 2 þús. kr. í sparisjóði. Eg bað þá að bíða að eins nokkra daga, þangað til í næstu viku, og taka þá fé sitt út, ef þeir álitu það þá í hættu. Þeir biðu, og eftir vikutíma var hræðslan að miklu leyti fallin niður, svo að þeir létu fé sitt standa í bankanum. Það eru því hrein ósannindi, að við bankastjórnin höfum reynt að æsa menn til að taka fé sitt úr bankanum; við gerðum þvert á móti alt, sem í okkar valdi stóð, til að koma í veg fyrir hræðsluaðsúg að honum. En samt sem áður misti bankinn þá upphæð, sem eg nefndi áðan. — Um starf nefndarinnar get eg verið fáorður alt til síðari hluta septembermánaðar. Hún starfaði daglega í bankanum frá því í maímán., og fór alt vel, og var samkomulag hið bezta milli hennar og bankastjórnarinnar. Enda var þá áður umgetinn vinur minn formaður hennar. Er komið var fram yfir miðjan sept.mán. er mér fullkunnugt um, að hann áleit störfum nefndarinnar vera lokið, og lét hann þá á sér skiljast, að hann hefði ekki fundið neitt verulega athugavert í ástandi bankans, — þó að Ísafold auðvitað neitaði því síðar, að hann hefði látið nokkuð slíkt í ljós. Í júní átti eg tal við ráðherra áður en hann fór til Hafnar. Hann talaði þá um það, hvort ekki væri ætlast til að gerðabók væri haldin í bankanum. Eg sagði, að við álitum hvorki þörf á því né skyldu til þess. Sömuleiðis skýrði eg honum frá annmörkunum á því að halda slíka gerðabók. En jafnframt benti eg á aðra aðferð, sem mætti viðhafa til frekari tryggingar við lánveitingar, sem sé að leggja fyrir féhirði bankans að borga ekki út neina fjárhæð nema fylgdi útgjaldaskipun undirskrifuð af framkvæmdarstjóra ásamt öðrum gæzlustjóranna. En þetta var aldrei gert. Síðan átti eg ekki tal við ráðherra um neitt mál, þangað til um lok sept.mánaðar, og var alt kyrt allan þann tíma. En þá var ný nefnd skipuð til að framkvæma rannsóknina. Eg skal ekkert um þá nefndarmenn segja nema það, að eg álít þá gersamlega óhæfa til þessa starfs, þeir höfðu enga andlega burði til að leysa það vel af hendi. Þá fór alt og að ganga stirðlegar. Gerðabókarþrefið hófst nú á ný. Við bankastjórnin vildum reyna að jafna alt sem bezt. Þann 7. okt. byrjuðum við að halda gerðabók og gerðum það þangað til okkur var vikið frá. En við unnum lítið með því að láta það undan, því að þá hófst strax stríð um það, hvernig ætti að halda bókina. Við löguðum okkur sömuleiðis eftir ráðherra í því. Eg ætla hér að segja frá dálitlu atviki, sem bar við þ. 15. okt. Þann dag kom til mín mikilsmetinn maður og vinur ráðherra. Hann varpar mæðilega öndinni og segir að þetta bankaþóf ætli að taka ljótan enda, því að ráðherra muni ætla að setja alla bankastjórnina af, líka gæzlustjórana. Eg svaraði að eins, að eg tryði því ekki. Nafn mannsins get eg nefnt fyrir væntanlegri rannsóknarnefnd. Eg skýri frá þessu atviki til að sýna það, að þá, þ. 15 okt., hefir það auðsjáanlega verið afráðið að víkja okkur frá. Það vantaði ekki annað en tilefnið. En þá var nefndin ekkert farin að rannsaka hag bankans; það er mér fullkunnugt, enda kom skýrslan ekki út fyr en í janúar. Mér var það þá þegar ljóst, að tilgangurinn með þrefi nefndarinnar var eingöngu að finna nógu sterka átyllu til að koma okkur gæzlustjórunum frá. En nú hverf eg aftur að sögu málsins frá 15. okt. Gerðabókarþrefið hélt stöðugt áfram, og geta menn lesið nokkuð um það í athugasemdum vorum við skýrslu nefndarinnar. Mánudag 15. nóvember barst bankastjórninni bréf frá ráðherra, þar sem hann skipar okkur afdráttarlaust að halda gerðabók í því formi og á þann hátt, sem hann hafði áður lagt fyrir okkur, en við færst undan að gera. Við gæzlustjórarnir spurðum framkvæmdarstjórann, hvort hann treystist til að halda bókina á þenna hátt. Hann svaraði, að hann sæi ekki ástæðu til þess og vildi ekki gera það, meðal annars af því hann ætti nú ekki nema 6 vikur eftir af sínum starfstíma við bankann. Hér var úr vöndu að ráða. Þá datt mér gott ráð í hug. Eg stakk upp á því við hinn gæzlustjórann, að við skyldum fara til ráðherra og tala persónulega við hann um málið. Við gerðum það. Við töluðum ítarlega við hann, og fór samtalið vel og liðlega án nokkurs stirðleika. Var þetta síðasta samtal mitt við ráðherra. Við tjáðum honum að framkvæmdarstjóri vildi ekki halda gerðabókina, og við gætum ekki gert það tveir einir. Auk þess ætti um nýárið að semja nýja reglugerð (sem annars er ósamin enn) og mætti þá gera ákvörðun í reglugerðinni um gerðabókina. Þetta félst ráðherra á og svaraði: „ Jæja, það verður að vera svo til nýjárs“. Þetta voru hans óbreytt orð. Eg man að eg sagði við séra Eirík Briem, þegar við gengum út: „Það fór betur að við töluðum við ráðherra“. Eg hélt sem sé, að nú væri alt þrefið búið. Enda var gerðabókin nú úr sögunni. Er nú fátt eftir, sem vert er að geta um, nema ef vera skyldi að þ. 17. nóv. sat eg vinaboð hjá ráðherra, — 5 dögum áður en afsetningarbréfið, sem allir munu kannast við, barst í hendur mínar. Eg fékk það skömmu eftir hádegi mánudag þ. 22. nóv. Reyndar hafði eg daginn áður heyrt að þetta væri í aðsigi, því einn nákominn maður ráðherra sagði kunningja sínum, er þeir sátu saman ásamt öðrum, við öl á laugardagskvöldið næst á undan. Þessi kunningi sagði kunningja sínum, og barst það þannig til mín. Reyndi eg þá á sunnudaginn að hafa tal af mönnum nákomnum málinu. Einn faldi sig þangað til alt var afstaðið, og annar, sem eg náði í, vildi ekki láta neitt uppi. Þannig er þá saga málsins, mjög stytt. Eg þóttist þurfa að segja hana, því margt af þessu er mönnum ekki kunnugt áður.

Úr því að eg á annað borð stóð upp, verð eg að minnast nokkurum orðum á lögmæti afsetningarinnar.

Eg er öldungis viss um, að aldrei hefir fyr í sögu þessa lands verið beitt þvílíkri aðferð, sem hér um ræðir — að reka burtu trúnaðarmenn þingsins frá starfi sínu, án þess að þeim sé gerr nokkurr kostur á að bera hönd fyrir höfuð sér. —

Það er engin ástæða, að segja: þú ert klaufi, trassi, heimskingi, eða því um líkt. Þegar af þessu að engin ákveðin sök er gefin, er afsetningin ólögleg — fullkomlega ólögleg.

Eg vil leyfa mér að leggja áherzlu á það fyrir hinni háttv. deild, að okkur voru engar ástæður gerðar kunnar, og áttum engan kost á að kynnast þeim, fyr en skýrsla Rannsóknarnefndarinnar kom út — og ekki var heldur svo, að okkur væri send hún, heldur urðum við að kaupa hana hjá bóksala, eftir að henni hafði þó verið dreift út um land með póstum. Um bréf rannsóknarnefndarinnar frá 16. nóv., um víxlakaup starfsmannanna, sem hefir verið aðalátyllan fyrir afsetningunni, er það að segja — að eg er hárviss um, að hefðum við fengið að sjá það, þá hefði ekkert orðið úr afsetningunni. — Við hefðum getað undir eins sýnt fram á það með rökum, að þær ástæður, sem bréfið greinir, voru gripnar úr lausu lofti. Annars nægir að vísa til „Aths. og Andsv.“ vorra um þetta atriði. —

Það kom mér mjög á óvart, er eg heyrði hæstv. ráðherra halda því fram hér í hinni háttvirtu deild, að frávikningin hefði að eins verið um stundarsakir; þá skoðun hefir víst hæstv. ráðh. ekki fyr látið í ljósi.

Frávikningin var fyrir fult og alt — og af þeirri ástæðu ólögleg í alla staði. Eg fór upp í stjórnarráð, þegar eftir afsetninguna og segi við ráðherra: „þú getur ekki meint, að afsetningin sé fyrir fult og alt. Þú getur eigi sett okkur frá nema um stundarsakir, og alls eigi eftir nýárið“. Því svarar ráðherra þannig: „Jú það skaltu sannarlega fá að sjá sjálfur“. — Og nú hefi eg beðið í fjórtán mánuði, eftir því, að geta rætt mál þetta á hinum rétta stað, hér í háttvirtri efri deild, er fól mér gæzlustjórastarfann á hendur — og ekkert sagt eða ritað um mál þetta, annað en bréfið, sem við bankastjórarnir létum birta daginn eftir að afsetningin fór fram, svo og bréf það, er eg einn ritaði ráðherra samdægurs afsetningunni, og birt var í blöðunum. Eg get ekki látið vera að minnast á auglýsinguna um frávikninguna, sem hæstv. ráðh. lét festa upp hér í höfuðstaðnum og síma út um land alt. — Með því særði hann freklega og svívirti okkur, gæzlustjórana — mig í æðsta dómarasessi landsins og hinn, elzta prestaskólakennara vorn.

Danskur, mikilsháttar borgari hér í bænum sagði við mig, sama daginn og afsetningin fór fram, að hann hefði orðið öldungis forviða, er hann hefði séð þessi orð, „disse skrækkelige Ord“ sagði hann. Og svo mun ýmsum fleiri hafa farið. — Orðin voru ljót — hvaðan sem þau hefðu komið, en ekki sízt frá manni í ráðherrastöðu, og það var ekki nóg með það, að þau væru útbreidd á allan hugsanlegan hátt hér á landi; heldur voru þau símuð suður til Danmerkur, annað hvort af hæstv. ráðh. sjálfum, eða þá af einum virktavini hans hér í bænum.

Danskt blað, sem nefnist „Politiken“, gerði það að umræðuefni út af þessu máli, hvort justitiarus Íslands gæti haldið áfram að vera dómari, eftir að vera afsettur á þann hátt, sem gert var, frá bankastjórastarfinu. Svo sterkar tilraunir gerði hæstv. ráðh. til þess, að draga dómara landsins ofan í skarnið, utanlands og innan.

Eg hugði þá, að háttvirtir samflokksmenn mínir mundu þegar taka í strenginn og ekki láta þannig svívirða mig að ástæðulausu, og traðka jafnframt rétti alþingis. Eg verð að játa, að þar varð eg að vísu fyrir vonbrigðum. — En vel getur legið þannig í því, að einstakir þingmenn hafi ekki verið fyllilega búnir að átta sig á gangi málsins. Hæstvirtur ráðherra virðist ekki hafa tekið það til greina, að bankalögin frá 9. júlí 1909 gera gæzlustjórana með öllu óafsetjanlega. — Eg fór sem fulltrúi háttv. efri deildar alþingis niður í Landsbanka, þegar eftir nýárið, til þess að gegna þar gæzlustjórastarfi mínu, en embættismenn bankans, bankastjórarnir, vildu ekki viðurkenna mig sem réttan, löglegan gæzlustjóra, og skutu sér í því efni undir úrskurð landstjórnarinnar.

Því var það, að eg fór til fógeta og krafðist þess að verða settur inn í bankann með fógetagerð. Fógeti úrskurðaði, að eg skyldi settur inn í bankann þannig, að eg hefði aðgang að bókum bankans og skjölum.

Fógetaúrskurði þessum hefir síðan verið áfrýjað til yfirdóms, þar er hann var staðfestur og síðar til hæstaréttar.

Með fógetagerðinni þóttist eg gera mitt til þess, að framkvæma vilja háttv. efri deildar; fyrir hana hefi eg átt kost á að hafa eftirlit með bankanum.

Annað mál mitt út af aðgerðum ráðherra var launamálið svokallaða, og var það aðalmálið, en í því krafðist eg dóms yfir bankanum fyrir gæzlustjóralaununum, og vann eg það gersamlega fyrir báðum réttum hér á landi. Launamálinu hefir enn ekki verið áfrýjað til hæstaréttar, og nú í þingbyrjun hefi eg fengið vissu fyrir því, að svo er ekki. En uppkveðnum dómum hefir ekki verið hlýtt; þeir hafa verið einskisvirtir.

Alt þetta, sem eg hér segi, er skjalfest og ómótmælanlegt. Það hafa verið brotin lög á alþingi; og sjálfur verndari laganna, hæstv. ráðh., gengur fram fyrir fylkingar. Og síðan hefir hann rofið lögmæta dóma.

Það má því með fullum rétti kalla núverandi landstjórn lögbrotastjórn og dómrofastjórn; svo lagaða stjórn höfum við haft síðasta 2ja árabil. Hún hefir brotið lög á alþingi, og rofið dóma, er uppkveðnir hafa verið mér í vil. Hún hefir engan lagastaf, enga lagaheimild haft til að skipa hvað ofan í annað aðra gæzlustjóra við Landsbankann en hina þingkjörnu. Það er þriðja lagabrotið. Lagabrotin eru þrjú. Fyrsta, afsetningin 22. nóvbr. 1909. Annað, bréfið 3. janúar, er hann tilkynnir okkur, að okkur sé bannað að komast að bankanum. Þriðja, skipun gæzlustjóra við Landsbankann. — Þetta alt til samans vænti eg að háttv. alþingi taki til vandlegrar íhugunar, því að alt þetta kemur niður á hv. efri deild, er brot gegn þessari deild. — Alt hjal hæstv. ráðh. og fylgismanna hans um tap það hið mikla, er bankinn hafi átt að bíða, og okkur gæzlustjórunum er um kent, er einber hégómi, fullkomlega ósannaður tilbúningur.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar telur tapið 400,000 krónur, en þessu er slegið fram gersamlega út í bláinn. Tapið var ekki orðið meira en 15,000 krónur við árslok 1909; og þótt svo líti út, sem verið sé að teygja tölurnar sem næst upphæð rannsóknarnefndarinnar á síðasta reikningi bankans, þá virðist það frekar vera gert hæstv. ráðh. og nefndinni til hugnunar, en að fyrir því sé nokkur reikningsleg heimild. Og enn sem komið er get eg með ánægju lýst yfir því, að tap bankans er nauða lítið, eigi einu sinni náð 30 þús. krónum bæði árin 1909 og 1910. — Lítið er það, sem betur fer, upp í allar þessar 400,000 krónur.— Sama er að segja um varasjóðinn, hann er enn nákvæmlega það sem hann átti að vera, um 706,000 krónur. Hann er ekki tapaður og engu tapað af honum. En það vil eg leyfa mér að taka fram í þessu sambandi, að á því tapi, sem bankinn hér eftir kann að bíða, berum við enga ábyrgð, fráviknu gæzlustjórarnir.

Annars ber eg það traust til hinnar háttvirtu deildar, að hún geri réttilega upp á milli mín og hæstv. ráðh. í máli þessu.

Eg get ekki látið hjá líða að minnast enn á orð hæstv. ráðh., þar sem hann heldur því fast fram, að afsetningin sé hvorki né hafi verið fyrir fult og alt. Aldrei hefi eg fyr heyrt nokkurn mann halda fram jafnröngu máli, þrátt fyrir óhrekjanlegar skjalfestar sannanir. Og þess vegna finst mér ekki neitt sérlega óeðlilegt, þótt einhverjum kynni að fljúga í hug, að ekki mundi alt með feldu um sálarástand hæstvirts ráðh. í seinni tíð.

Enn vil eg taka það fram út af orðum ráðherra, að bankastjórnin hafði aldrei veðsett varasjóð bankans, og í vörzlum bankans var svo mikið af góðum, tryggum bréfum, sem nægði fyrir varasjóði. Tryggvi Gunnarsson hefir í höndum kvittun viðtakenda fyrir þeim.

Alt þetta veðsetningarhjal er botnleysa, og rangt frá rótum. Bankastjórnin hafði að vísu fult vald til veðsetningar, en Landmandsbankinn hafði ekki beðið um veð og því var honum eðlilega ekki veð sett. Hið margumtalaða fjögur hundruð þúsund króna tap er tóm getgáta, og sett alveg út í bláinn. Eg gæti ímyndað mér að bankinn gæti tapað fjórum hundruðum þúsunda króna á 10 til 20 árum, ef bankastjórnin væri ekki gætin og bruðlunarsöm með fé bankans.

Að því er sparisjóðinn snertir, er það fullkunnugt, að það er ósatt mál að hann hafi ekki verið gerður upp. Hann hefir einmitt verið gerður upp á hverjum degi, á hverjum mánuði og við hver árslok. Það er vitanlegt, að það sem Ísafold segir um þetta mál er algerlega út í loftið sagt.

Einn rannsóknarm. sagði ráðherra eða Ísaf. að sparisj. hefði ekki verið gerður upp svo, að heim hefði komið. Þetta mun ráðherra og Ísafold hafa misskilið svo, sem engin uppgjörð hafi átt sér stað, og þannig var þetta látið fara út í almenning. Sparisjóðurinn hefir verið gerður upp á tvennan hátt og við þá uppgerð munaði um 47 krónur og nokkra aura, en bankastjórnin áleit ekki tilvinnandi að leita að svo lítillí skekkju. Svo hefir ráðherra, ef til vill óviljandi, hlaupið með þetta í Ísafold.

Það er ekki til neins að reyna að halda þessu fram hér í deildinni. Þetta er misskilningur úr ráðherra. Annars er þetta mál fyrir löngu úr sögunni.

Eg neita því gersamlega að bankastjórnin hafi að nokkru leyti tafið fyrir rannsóknarnefndinni. Gamla bankastjórnin var henni einmitt innanhandar og starfsmenn bankans hjálpuðu henni í hvívetna. Þetta er því tómur fyrirsláttur og uppspuni. —

Ráðherra segir, að spurningin um lögmæti afsetningarinnar sé fyrir dómstólunum Hún er fyrst og fremst fyrir þessari háttv. deild. Deildin verður að segja, hver sé löglegur gæzlustjóri hennar. —

Hæstvirtur ráðherra sagði, og þóttist þar hafa tromp á hendi, að bankamennirnir dönsku hefðu lagt það til, að afsetningin héldist. Það er næsta ótrúlegt að þeir hafi farið að blanda sér í þetta sérmál, mál, sem vissulega er sérmál okkar og stjórnarinnar. Við mig sögðu bankastjórarnir dönsku, að þeir skiftu sér alls eigi af stjórnarráðstöfunum (pólitík), og lögðu áherzlu á það. Þetta hlýtur því að vera rangt hjá ráðherra.

Bankastjórarnir dönsku fóru 29. des. 1909, ef eg man rétt, eða að minsta kosti nokkru fyrir nýár. Á gamlársdag veit eg með vissu, að ráðherra ætlaði þá að setja gæzlustjórana inn aftur í bankann. —

En þá hefir illur andi komið í spilið, sem réð því að bréfið var skrifað 3. jan.

Ráðherra getur ekki borið fyrir sig bankastjórana dönsku. Eg átti einmitt tal við þá skömmu áður en þeir fóru og þeir sögðu mér, að um þá spurningu mundu hvorki þeir sjálfir eða Landmandsbankinn láta neitt uppi. Eg krefst því skriflegra sannana ráðherra hér fyrir því, sem hann hefir sagt í þessu efni, en lýsi þetta annars tilhæfulaus ósannindi.

Annars gat Landmandsbankinn haft þessa skoðun þá, og breytt henni síðan, Eða að minsta kosti er engin ástæða til að ætla, að Landmandsbankinn hafi nú þessa skoðun. Og var ekki ástæða fyrir ráðherra í sinni fimm mánaða útivist að grenslast eftir þessu hjá Landmandsbankanum. Honum var sem sé innan handar að fá vissu um það atriði hjá nefndum banka.

Eg mun svo ekki þreyta deildina meira um þetta mál.

Það kemur nú vonandi bráðlega undir rannsókn og bíð eg eftir úrskurði deildarinnar um það, hvort eg er „hinn seki maður,“ eins og ráðherra hefir leyft sér að kalla mig.