22.02.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Sigurður Hjörleifsson:

Eg á ásamt tveimur samdeildarmönnum breytingartillögu á þingskjali 47. Hennar hefir áður verið minst lítillega, en eg vil þó með fáeinum orðum mæla með henni. Það hefir verið sagt, um þessa tillögu, að ekki væri til neins að bera hana fram, þar sem málið væri þegar afgert. Það hefir ennfremur verið sagt að það færi ekki vel á því að ritstjóri Norðurlands væri flutningsmaður hennar; en hinsvegar engin rök verið færð fyrir þeim ummælum, enda tel eg þau markleysu. Það sem þessi tillaga fer aðallega fram á er að breyta tillögunni svo, að ekki verði ber hlutdrægni deildarinnar í þessu máli. Þetta er gert vegna velsæmis deildarinnar. Það lítur ekki vel út að orðalagið á þingsályktunartillögunni sýni, að deildin hafi fyrirfram ákveðinn tilgang með þessari nefndarskipun, sem bendi til harðræðis og hlutdrægni.

Hér eru þeir menn við riðnir, sem þetta mál snertir svo mjög, að úrskurður þeirra verður að skoðast næsta hlutdrægur, enda mundu þeir vera taldir óhæfir dómarar um það í hverju öðru siðuðu landi.

Hér í deildinni eru báðir gæzlustjórarnir og bróðir annars þeirra, og ætla þessir menn að ráða úrslitum málsins. Ákærendur eru hér dómendur, og dómendur ákærendur.

Þeir sem ákærðir hafa verið eru líka dómendur. Sjálfur háyfirdómari landsins ætlar sér að vera háyfirdómari hér í sínu eigin máli.

Það virðist öllu betur við eigandi, að ekki sé öllum auðsætt, að hér sé að ræða um ákveðna skoðun og stefnu í málinu, áður en þingið hefir rannsakað það. Það er annars óþarft að tala um þetta langt mál og er að öllu leyti sæmilegra að talað sé sem minst um málið, áður en rannsókn fer fram. Hefði verið heppilegra að málið hefði komið annarstaðar fyr fram, en þar sem báðir gæzlustjórarnir hafa atkvæði.