04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

114. mál, bankavaxtabréf

Framsögum. (Björn Kristjánsson):

Frumvarpinu um fasteignaveðbanka var vísað til peningamálanefndarinnar snemma á þessu þingi. Nefndin hefir athugað það og telur ekki tiltækilegt að útkljá það á þessu þingi af ýmsum ástæðum. Það mundi þó íþyngja landsbankanum um of, ef hann ætti að halda áfram að tryggja lán úr veðdeildinni með 1/6. Aftur á móti mundi landssjóður líklega geta lagt fram 250 þús. kr. í innlendum 3. flokks verðbréfum, sem landsbankinn mundi skifta um fyrir 2. flokks verðbréf. Af þeirri ástæðu hefir nefndin komið fram með frumv. á þgskj. 303, sem leggur þá byrði landssjóði á herðar, að setja þessa tryggingu í staðinn fyrir að landsbankinn hefir orðið að setja hana sér um megn, og nemur sú trygging nú nærri því einni miljón króna. Með þessu móti ætti það að vera kleyft, ef stjórninni tekst að fá þá ½ miljón króna að láni, sem ótekin er samkvæmt lánsheimildinni frá síðasta þingi, að bankinn geti séð sér fært að veita veðdeildarlán áfram, annars getur hann það ekki, og vonandi að þetta fé hrökkvi til næsta þings, ef það fæst. Eg þykist viss um, að háttv. deild skilji það, að lánsmöguleiki veðdeildarinnar stendur og fellur með því, hvort bankinn fær þetta lán eða ekki, og óviðkunnanlegt væri að þurfa að hefta lán svo snögglega, að eigi væri t. d. hægt að halda áfram með að byggja hús, sem eru í smíðum.

Eg sé að hér stendur á dagskrá frv. um fasteignaveðbanka, en eg mælist til, að það sé tekið út af henni, og ekki tekið inn á dagskrá, fyr en útséð er um það, hvernig þessu frumv. reiðir af. Fyr má ekki sálga því, og skal eg svo ekki segja meira um þetta, en vona að frumv. verði samþ., því þess er full þörf.