03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (1665)

154. mál, lántökuheimild

Flutnm. (Magnús Blöndahl):

Eg fyrir mitt leyti skal ekki lasta það, þótt háttv. þingm. vilji vera varkárir, er um lánsheimildir er að ræða til handa landssjóði. Hins vegar verða menn að gæta þess, að ofmikil varkárni getur oft verið skaðleg og bakað landssjóði — í þessu tilfelli — tjón og óþægindi.

Eins og áður var tekið fram, þá er hér að eins um lánsheimild að ræða, er að sjálfsögðu verður því að eins notuð, að brýna nauðsyn beri til.

Eg get nú ekki séð, að lánsheimild þessi, sem hér er um að ræða, eigi neitt skylt við fjárlagafrumvarpið fyrir næsta fjárhagstímabil, því þótt tekjuhallinn á fjárlögunum kunni að verða nokkur — jafnvel svo hundruðum þúsunda skiftir, mun óhætt að fullyrða, að hann verði miklum mun lægri en 1903, og ef vel er aðgætt, hve tekjurnar eru lágt áætlaðar, getur maður eins vel búist við, að tekjuhallinn verði enginn.

Eg hafði áður tekið það fram, að það sem mun hafa vakað fyrir stjórninni, er hún óskaði þessarar lánsheimildar, var fyrst og fremst það, að vera við því búin að geta greitt meira eða minna af þeim 400 þúsundum, sem landssjóði er nú ætlað að leggja til hafnargerðar hér í Reykjavík, og ef til vill styrkur til bryggjugerðar í Hafnarfirði, Vestmannaeyjum o. fl. og ennfremur — ef á þyrfti að halda — að greiða ríkissjóði Dana að fullu skuld þá, er landssjóður er í við hann út af póstávísunum þeim, er ríkissjóður hefir greitt fyrir landssjóð. Skuld þessi var í ársbyrjun á 5. hundrað þúsund og að sjálfsögðu getur ríkissjóður heimtað hana borgaða hve nær sem er; mun líka hafa farið fram á, að slík skuld væri greidd mánaðarlega, þótt samningar muni hafa tekist í bráð, um það að gerð væru upp viðskifti ríkissjóðs og landssjóðs á hverjum 3 mánuðum. Lánsheimild þessi er því svo langt frá að vera óforsvaranleg, að eg tel víst, að ef háttv. þingm., er talað hafa á móti henni athuga allar ástæður, muni þeir telja hana réttmæta og sjálfsagða.

Að taka hefði átt fram í lántökuheimildinni með hvaða kjörum lánið megi takast getur verið rétt og ekki rétt, en að sjálfsögðu verður að ganga út frá því, að landsstjórnin taki lánið með eins góðum kjörum og hægt er.

Annars má benda á í þessu sambandi, að þingið er sjálft skuld í, að landssjóður hefir svo lítið handbært fé fyrirliggjandi, með því að heimila landsstjórninni að lána út hverja stórupphæðina á fætur annari og binda þannig meir og meir fé viðlagasjóðs, og verður þingið því að sjá fyrir því, að stjórnin komist ekki í vandræði með að greiða nauðsynleg gjöld landssjóðs.

Vil eg því mæla hið bezta með frv. og vona, að það nái samþykki háttv. deildar.