04.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1366 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

15. mál, verslunarbækur

Framsm. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Breytingar, sem farið er fram á í nefndarálitinu, eru ekki stórar, einungis að fyrir 10 kr. komi 5 kr., og aftan við bætist: »ekki yfir 100 kr.« Önnur tillaga er það, að á undan orðinu fangelsi komi: »sektir eða«. Það er og lagt til, að 3. gr. falli burt. Þótti nefndinni það viðurhlutamikið ákvæði. Loks komi ný gr. svo hljóðandi, að í stað »árs« komi: »þriggja missira«. Búumst vér við, að öllum þyki það sanngjarnt. Svo er orðabreyting, að í stað löggilt komi lögskipuð. Þá hefir komið fram breyt.till. frá þm. S.-Þing. (P. J.) þess efnis, að á undan 1. gr. komi ný gr. Um hana er það að segja, að hún er að öllu leyti ófær. Grein sú, sem hann fer fram á að bætt sé framan við, hljóðar þannig:

»Upphæð verzlunarviðskifta, sem skylt er að bókfæra og gefa frumbókarsamrit af, á þann hátt, sem 2. gr. í lögum um verzlunarbækur mælir fyrir um, skal nema 2 kr. eða þar yfir.«

Spillir þetta lögunum að miklum mun, þessi samrit auka alls enga verktöf.

Samritið verður til af sjálfu sér jafnframt og innfært er í bókina. Það kostar enga aðra fyrirhöfn, en að kippa samritsblaðinu upp úr bókinni og rétta skiftavini það.

Annars býst eg við, að þar sem um ekki meiri breytingar er að ræða, að málið fái að ganga óhindrað til 2. umr.