06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1676)

15. mál, verslunarbækur

Pétur Jónsson:

Það gladdi mig að heyra, að háttv. framsm. (J. Ól.) var ekki kappsamlega á móti brtill. minni. Eg veit ekki, hvort menn gera sér það ljóst, hveru mikil óþægindi og fyrirhöfn núverandi fyrirkomulag hefir í för með sér. Eg þekki þetta mál mörgum þingdeildarmönnum betur, vegna þess að eg hefi nú um nokkur ár haft á hendi umsjón verzlunar, sem einnig rekur búð, og eins og menn vita, þá er verzlunarfyrirkomulag hér á landi víðast hvar þannig, að menn hafa smá ársreikninga, þar sem skrifað er bæði úttekt manna og innlegg. Það er því mjög mikil fyrirhöfn, að skrifa í kalkibók hvert smáræði, sem út er tekið, þó ekki sé nema snærispotti eða fingurbjörg. Það getur nú verið, að menn finni ekki eins mikið til þess alment hér í Reykjavík, þar sem verzlunin er daglega jafnari, heldur en úti um landið, þar sem kauptíðir eru á vissum tímum, og viðskiptamenn koma í stórhópum einstaka daga, svo alt er í uppnámi, en tímum saman aftur lítið að gera, og mannahald því ekki hægt að miða við mikla ös. Við þá verzlun, sem eg þekki bezt, er eg viss um, að þessar kalkibækur auka að minsta kosti í kauptíðinni mannahald að talsverðum mun. Eg vona nú, úr því hinum háttv. framsögum. (J. Ól.) er ekki kappsmál um þetta, að till. mín nái fram að ganga, því hún er til mikilla bóta, og þar sem hann félst á það, að hún væri ekki lögunum til skaða, þá vona eg að alþingi geti felt sig við hana.