06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1369 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

15. mál, verslunarbækur

Björn Kristjánsson:

Eg skrifaði undir breyt.till. við þetta frumv. með fyrirvara, og verð að gera stutta grein fyrir skoðun minni á málinu. Þetta mál var svo mikið deiluefni á seinasta þingi, að það komst í sameinað þing. Eg skrifaði undir með fyrirvara meðal annars af því, að nefndin vildi ekki fallast á till. hv. þm. S.-Þing. (P. J.), sem eg vil styðja. Eg álít, að reikningar samstundis séu, þegar um smáupphæðir er að ræða, alveg þýðingarlausir. Reynslan hefir sýnt, að þeir hafa ekkert annað í för með sér en aukin störf. Þeir tvöfalda störfin, því að fyrst verður að skrifa þá og síðan að innfæra þá í frumbók, en gera aftur á móti ekkert gagn, því að slík reikningsafrit eru sjaldnast birt, þeim er vanalega kastað burtu, og veita heldur enga sönnun fyrir, hvort maðurinn hefir fengið vöruna eða ekki. Kostnaðurinn verður líka stórmikill fyrir hverja verzlun og hann kemur niður á þjóðinni. Menn taka sjaldnast út í stórslumpum, því að menn eru oft á ferð, og erfitt mun að hafa þessar frumbækur fyrir kladda, þó til þess sé ætlast. Að minsta kosti veit eg það, að í verzlun þeirri, sem eg rak, voru frumbækur þessar aldrei notaðar sem slíkar, heldur úr þeim fært inn í hreinskrifaða frumbók.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) sagði, að bækur þessar væru notaðar um allan heim. Það er alveg rétt, en þar stendur nokkuð öðru vísi á. Þar ganga viðskiftin mikið jafnara, svo að hægra er að koma þessu við. Hér í Reykjavík er heldur ekki erfitt að hafa þessa aðferð, en úti um land er það ógerningur. Eg verð því að mæla með, að breyt.till. hv. þm. S.-Þing.

(P. J.) verði samþykt.