10.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

60. mál, fiskveiðar á opnum skipum

Flutningsm. (Skúli Thoroddsen):

Eins og kunnugt er, voru á síðasta þingi samþykt lög, er létu lög frá 14. des. 1877 og 10. nóv. 1905 um ýmisleg atriði, er snerta fiskiveiðar, einnig ná til þiljaðra mótorbáta í Vestmannaeyjum. En slíkir bátar eru víðar farnir að tíðkast heldur en í Vestmannaeyjum, t. d. við Ísafjarðardjúp. Fyrir því hafa útgerðarmenn þar óskað þess, að lög þessi yrðu einnig látin ná þangað, og hefir sú ósk komið fram á þingmálafundum í Norður-Ísafjarðarsýslu. Eg álít óþarft að fara fleirum orðum um frv. Þetta er ekki annað en sanngirniskrafa, sem eg vona að háttv. deild hafi ekkert á móti að verða við.