06.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (1723)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Einar Jónsson:

Enda þótt þetta sé eitt hið stysta af þeim frumvörpum, sem lögð hafa verið fyrir þingið, er það ekki hið þýðingarminsta. Það gengur út á, að brúa vatnsfall, sem margir þekkja og hafa heyrt getið sem eins hins hættulegasta og versta yfirferðar á öllu landinu. Eg hefi sjálfur oft farið yfir það, og get því borið um, hvílík torfæra það er. Það er alls engin smáspræna, þótt það sé stutt. Eg vil því óska, að deildin taki vel í þetta mál, einkum þar sem ekki er ætlast til, að féð sé veitt strax, heldur svo fljótt sem auðið er á næstu þingum.

Til þess að sýna, hve knýjandi nauðsyn er til þess, að brúa fljót þetta, skal eg með örfáum orðum skýra frá því, hve miklu tjóni áin hefir valdið á síðustu tímum. Grein kom um það í blöðunum nýlega, en ekki er víst, að háttvirtir þingdeildarmenn hafi veitt henni eftirtekt. Samkvæmt þeirri grein hafa á síðastliðnum 200 árum farist í ánni 40 manns og marg oft hafa takmörk milli lífs og dauða eigi verið auðsæ hjá umfarendum, þó sloppið hafi lífs. Og þess er að gæta, að umferðin er mjög mikil og fer ætíð í vöxt, vegna þess að verzlun í Vík er stór og skemst að sækja þangað vörur frá fjölda manna, er yfir ána verða að fara. Beggja vegna við ána eru sléttir og góðir vegir og mætti nota vagna á þeim stöðum, ef brú væri á ánni, en ógerningur ella. Í öðru lagi verða Eyfellingar að vitja læknis yfir ána, en það er oft ókleyft dögum saman. Getur það staðið á æði miklu og ekki unt að segja, hve mörg mannslíf það kostar.

Eg skal láta mér nægja að lýsa yfir þeirri skoðun minni, að ef nokkurstaðar er þörf á brú, þá er það hér. Vona eg að háttv. þingdeild taki málinu vel, eins og Ed. hefir gert.