25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (1726)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Jón Sigurðsson:

Viðaukatillaga mín á þgskj. 709 fer fram á það að veita 45,000 kr. til hengibrúar á Hvítá hjá Ferjukoti. Er þetta sett eftir áætlun verkfræðingsins. Kláffossbrú er á þjóðveginum, en þessi fyrirhugaða brú yrði á sýsluvegi. Á þjóðveginum er áin lítil, en þegar komið er niður undir Ferjukot, eru komnar í hana margar ár og hún orðin afarmikið vatnsfall. Það er mikill áhugi meðal manna í Borgarfirði að fá brúna, enda er hennar brýn þörf. — Það hefir verið talað um það, þegar leitað hefir fjárveitinga til brúargerða, hve mannskæðar árnar væru. Þessi á er ekki síður mannskæð en aðrar ár; á síðustu 15 árum hafa farist í henni 8 manns.

Úr því að farið er að bera upp frv. um brúargerðir, þá ætti þessi að verða með, enda ekki hætta á ferðum, þar sem stjórninni er í sjálfsvald sett, hvenær það verður. Vona eg því, að menn samþykki þessa tillögu.