25.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1393 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

92. mál, brúargerð á Jökulsá

Pétur Jónsson; Mér láðist að geta þess áðan, að nefndin hefir ekki haft þessar brtill., sem hér er um að ræða, til meðferðar, og engin borið sig saman við hana um þær. Þetta mælir því enn með því, að málið sé tekið út af dagskrá í dag. Annað er það, að rökstudd dagskrá, sem hér er framkomin, er svo orðuð, að í henni virðist fólgin skuldbinding frá þinginu um að taka að sér þær brýr, sem ekki eru á landssjóðs vegum, og setja þær jafnhátt hinum, þar sem brýrnar á Hofsá og Hvítá eru teknar til jafns við aðrar. Þetta eitt ætti að vera nóg til þess, að gera ekki út um þetta í dag, því að það er þó ekki meiningin, að þessar brýr eigi að sitja fyrir öðrum brúm, sem landsjóði er skylt að leggja. Það getur að vísu stundum verið ástæða til þess að brúa slíkar ár, eins og t. d. Jökulsá í Axarfirði, sem skiftir sundur prestakalli, og hvergi er reið milli fjalls og fjöru, en héruðunum á hinn bóginn ofvaxið að brúa það, en óvíða eru slíkar ástæður.

Mér dettur nú í hug, að nefndin geti komið fram með þingsályktunartillögu í staðinn fyrir frumv., því ef frv. verður aukið með öllum þessum breyttill., þá er það alveg handónýtt, en ef þingsál.till. kæmi fram í sömu átt, þá gæti frumv. til brúalaga orðið tilbúið fyrir næsta þing.