28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1401 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

86. mál, sjúkrasamlög

Jón Magnússon:

Eg get vel skilið það, að slíkar brtill, komi frá mönnum, sem vilja yfirleitt fara gætilega í fjármálum, því að því verður ekki neitað, að frumv. þetta fer fram á talsverð fjárframlög úr landssjóði. En fyrsta hálfan mannsaldurinn hygg eg ekki, að landssjóðstillagið geti orðið mjög mjög tilfinnlegt. Frumv. er mjög gott, og eg er þess fullviss, að það ber góðan árangur, sérstaklega fyrir efnaminni stéttir landsins. Eg er háttv. flutn.m. brtill. því mjög þakklátur fyrir það, að hann hefir tekið tillöguna aftur, því að eg lít svo á, að verði fjárframlag landssjóðs ákveðið nokkru minna en frv. fer fram á, þá komi það að litlu eða miklu minna gagni en vera ætti og þörf er á. Landssjóðsstyrkurinn er eftir frumv. miklu lægri en tíðkast í öðrum löndum, t. d. í Danmörku og Þýzkalandi er framlagið 3 kr. á hvern mann, sem í sjúkrasamlaginu er. Eg held því, að það verði ekki nein tilfinnanleg byrði fyrir landssjóð, að minsta kosti ekki fyrst um sinn, þó að ákvæði háttv. Ed. um upphæð styrksins sé haldið. Hitt veit eg, að komist lögin á, verða þau að ómetanlegu gagni, og það auðvitað helzt efnalitlu fólki. Það hefir sýnt sig hjá öðrum þjóðum, þar sem þessi samlög eru orðin mjög algeng, að margföld blessun hefir orðið að þeim tiltölulega litla ríkissjóðs styrk, sem þau hafa notið.

Eg þarf svo ekki að tala meira um frumv. Það hefir fengið góðar undirtektir, og eg vona, að það verði samþykt óbreytt.