28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1406 í B-deild Alþingistíðinda. (1777)

63. mál, Húsavík með Þorvaldsstöðum

Jón Þorkelsson:

Eg skal geta þess, að eg hefi verið í nefnd þeirri, er skipuð var í mál þetta, og samdi eg nefndarálitið. Hefi eg því sökum sammæla í nefndinni ekki viljað leggjast á móti sölu þessarar jarðar, enda þótt eg sé, eins og eg oft hefi tekið fram áður, mótfallinn kirkju- og þjóðjarðasölu hér á landi.

Hér er nú að ræða um, að kauptúnið í Húsavik fái kauparétt á jörðinni og það talið kauptúninu áríðandi, og þessvegna hefi eg ekki viljað vera á móti þessari sölu með öllu. Þingið hefir reyndar áður neitað að selja jarðir þó líkt stæði á, svo sem Sauðá, sem kauptúnið Sauðárkrókur stendur á og gæti því þótt undarlegt, að vilja víkja frá þeirri stefnu nú. Sá er þó hér munur, að forkaupsréttur ábúandans á Þorvaldsstöðum er hér ekki í vegi, því að ábúandinn kvað vera á sveit. En forkaupsréttur ábúanda Sauðár var því til fyrirstöðu að hægt væri að selja hana kauptúninu, þegar það mál lá fyrir. En presturinn í Húsavík hefir nú sett þau skilyrði, að nokkur hluti túnsins ásamt húsum og 6 kúgildum væru undanskilin sölu þessari og því hefir nefndin komið með viðaukatillögu í þá átt og því að eins að hún verði samþykt, mun eg greiða frumvarpinu atkvæði.