29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1414 í B-deild Alþingistíðinda. (1790)

127. mál, sala á Sigurðarstöðum

Framsögum. (Benedikt Sveinsson):

Eg hefi ekki miklu við nefndarálitið að bæta. Eins og það ber með sér, hefir frú Guðrún Björnsdóttir ábúðarréttinn á jörðinni og dóttir hennar hefir óskað kaups á jörðinni. Og þegar það mál lá fyrst fyrir sýslunefnd Þingeyinga (2. júní 1909) var ekkert álitið því til fyrirstöðu, að jörðin yrði henni seld. En þegar íbúar Presthólahrepps fengu að vita þetta, héldu þeir fund og var þess þá óskað í einu hljóði af nærfelt öllum atkvæðisbærum mönnum, að jörðin yrði ekki öðrum seld en hrepnum, með því þeir töldu engan stað jafn hentugan þar í sveit til skólaseturs. Þegar svo málið kom til sýslunefndar aftur 25. apríl 1910, þá lagði hún á móti því, að ábúanda yrði seld jörðin og mælti með því, að hreppurinn fengi hana keypta til skólaseturs, eins og hreppsbúar höfðu óskað. Síðan sótti oddviti hreppsins um þetta til stjórnarráðsins, og gerði hann sér ferð hingað suður í fyrra vor og átti tal við þáverandi ráðherra, sem tók einkar vel í þetta mál og taldi sjálfsagt að jörðin yrði seld hreppnum. Þetta fórst þó fyrir, þegar til kom, með því að stjórnarráðið taldi ekki næga heimild til sölunnar og tók þá hreppsnefndin það ráð að fara fram á það við stjórnina, að hún legði frumvarp fyrir þingið, sem veitti þessa heimild. Þetta hefir nú stjórnin ekki gert, þrátt fyrir hin fögru ummæli ráðherra í fyrra vor; en kjósendur mínir í Presthólahreppi hafa til vonar og vara skorað á mig að bera þetta fram hér, ef stjórnin legðist það undir höfuð, og það hefi eg gert. Eins og menn vita er það eitt atriði meðal annars, sem veitir undanþágu frá venjulegum ákvæðum laganna um sölu kirkjujarða, að því er snertir forkaupsrétt leiguliða, ef jörð er þannig í sveit komið, að sýslunefnd telur hana vel fallna til skólaseturs og sé eg því ekki, hvað ætti að skorta á fulla heimild til þessarar sölu. En fyrst stjórnarráðið hefir ekki getað litið þannig á málið sem heimildin væri skýlaus, þá hefi eg nú borið þetta frumv. fram hér, og nefndin, sem málinu var vísað til, er öll samdóma um það, að rétt sé að samþykkja frumv. óbreytt, eins og það liggur fyrir, utan að því, að hún leggur til, að kaupverðið sé hækkað úr 6600 kr. upp í 7500 kr. Það getur nú verið, að hitt væri nær sanni, en þó hefir meiri hluti nefndarinnar verið á því, eftir þeim upplýsingum og skýrslum, sem fengist hafa frá kunnugum mönnum um kosti jarðarinnar, að ekki muni frágangssök að kaupa hana fyrir 7,500 kr. svo að þótt eg álíti raunar hina upphæðina nægilega háa, þá mun eg ekki gera ágreining út af þessu, enda vona eg að frumvarpið verði þá samþykt óbreytt að öðru leyti.