29.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (1802)

127. mál, sala á Sigurðarstöðum

Pétur Jónsson:

Mér er ekkert kappsmál um þetta mál, en mér virðist eins og oftar skilningur lögfræðinganna á lögunum nokkuð undarlegur, ef ekki »absurd«. Eg treysti mér ekki til lögskýringa, en eg ætti að geta lagt orð í belg um meininguna í þessum lögum, því að eg hefi verið með í því að semja bæði þjóðjarðasölulögin og forkaupsréttarlögin.

Eg skal skýra mönnum frá, hvað stendur í þeim lögum, sem háttv. þm Vestm. (J. M.) var að vitna í til þess að sýna hvaða endileysa yrði úr ákvæðunum, ef skilningur hv. lögfræðinga væri réttur. Þar stendur svo, að jarðeign, sem er í byggingu og gangi kaupum og sölum, skuli fyrst boðin leiguliða til kaups o. s. frv. Nú er opinber eign, sem ef til vill er búið að byggja á skólahús, föluð til kaups af sveitinni, sem á skólann. Þessa jörð má ekki selja leiguliða eftir 2. gr. í þjóðjarðasölulögunum. Ef alþingi nú samþykti lög um sölu þessarar jarðar til sveitarfélags, ætti líklega eftir meiningu hv. lögfræðinga að bjóða hana fyrst ábúanda til kaups. En til hvers? Ekki má selja honum jörðina, úr því hún er beint ætluð til opinberra nota. Það liggur í augum uppi, að þessi jörð er undanskilin sölu eftir hugsun laganna, og enginn einstakur maður getur átt né eignast kauprétt á henni Og það er undarlegt, þó bókstafur forkaupsréttarlaganna kunni að hljóða í þá átt, að teygja þau í beinan bága við önnur lög. Lögfræðingar geta gert annað þarfara.