17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1429 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

84. mál, færsla þingtímans

Jón Jónsson (1. þm. S.-Múl.):

Eg geri ráð fyrir að nefnd verði kosin í þessu máli, þó að eg ekki sjái ástæðu til þess og muni greiða atkvæði á móti nefndarskipun, og sömuleiðis móti því, að frumv. þetta verði látið ganga lengra. Engin gild rök hafa komið fram fyrir færslu þingtímans frá því sem nú er. Aðalástæðan, sem færð er fram af hálfu stjórnarinnar, er vond veðurátta og samgönguleysi. Nú vill stjórnin færa byrjun þingtímans til 15. maí, og hélt eg, er eg fyrst sá frumv. stjórnarinnar, að hér væri um prentvillu að ræða, því að eg álít satt að segja, að enginn mundi ófróður um, að samgöngur eru verstar í apríl og maí bæði á sjó og landi, en þegar kemur fram yfir fardaga, má hins vegar fara á landi, þó að ísar banni hafleiðina. Önnur ástæðan til færslunnar er sú, að áhugi sé meðal þingmanna á, að breytt sé til, en þessi ástæða kemur mér öldungis óvænt, því að slíks hefir hvergi verið getið, hvorki á þingi, utan þings né í blöðunum. En ef til vill hefir ákvörðun um þetta verið gerð á flokksfundi meiri hlutans í hitt eð fyrra. Aðrar ástæður hafa engar verið færðar fram; það sannar ekkert, að tveir þingmenn hafi nú orðið tæpt fyrir, slíkt getur ekki síður komið fyrir í maí og á hvaða tíma árs, sem er, ef teflt er á fremsta hlunn og um sjóleið er að ræða. Eg hygg, því að ekki þurfi að færa þingtímann frá því sem nú er; en ef breyta skal, þá mundi ákjósanlegast að láta þing koma saman á haustin, t. d. í seinni hluta nóv. eða þá um miðsumar, líkt og áður var. Eg er mótfallinn frumv., enda eru nú allar hinar sömu ástæður til að halda vetrarþing, eins og þegar sú lagabreyting var ráðin.