17.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1442 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

84. mál, færsla þingtímans

Sigurður Gunnarsson:

Eg mótmæli því kröftuglega, að eg hafi talað um búfræðinginn Sigurð Sigurðsson. Eg hefi að eins talað um stéttir landsins og þá líka minst á búfræðingana. Hinn hv. þm. (S. S.) hefir talað fremur með dugnaði en rökum; sérstaklega tókst honum illa að koma fyrir kattarnef þeirri röksemd, sem eg tel algerða röksemd, að bændum hentar ver að yfirgefa bú sín vetur en sumar. Eg hefi talað við marga bændur um þetta mál, og hafa þeir allir verið á eitt mál sáttir, að fleira væri að gæta á vetrin en sumrin;

t. d. er ilt að eiga undir öðrum, ef fóðurskort ber að höndum. Allir, sem við sveitabúskap hafa fengist vita, hve afarnauðsynlegt er, að heyfengnum sé vel varið að vetrinum og beitin skynsamlega notuð, eigi bústofninum, er velsæld heimilisins veltur á, ekki að vera í hættu stofnað. Það er því mun erfiðara að fá sér góðan forstöðumann bús að vetrinum en að sumrinu.

Háttv. þm. misskildi orð mín um háskólann, þau áttu fremur við framtíðina en nútíðina; en út af því sem hv. þm. talaði frekar um háskólann, skal það tekið fram, að háskólalögin eru þó staðreynd, samþykt af alþingi og staðfest af konungi, og komast þau því væntanlega einhverntíma í framkvæmd, þó að það verði ekki ef til vill á næsta ári.

Að öðru leyti skal eg ekki fjölyrða frekar um þetta mál, en vil enn ráða fastlega til að nefnd verði skipuð.