16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

84. mál, færsla þingtímans

Jón Sigurðsson:

Það er rétt hjá háttv. framsögumann (J. Ól.), að skoðanir manna um þetta mál muni vera nokkuð skiftar. Eins og kunnugt er, hefir alþing altaf komið saman 1. júlí, þangað til tvö seinustu þing. 1905 þótti sá tími óhentugur, og var þá samþykt breyting á tímanum í Ed. og gekk það umræðulaust gegnum Nd. Ed. hefir réttilega litið á það, að vetrartíminn er sá tími, sem annir bænda eru minstar og því skaðaminna fyrir þá að fara að heiman en á sumrin, sem er aðalbjargræðis- og framleiðslutíminn. Því var hreyft við 1. umræðu, sem dæmi upp á, hve óheppilegur hinn núverandi þingtími er, að 2 þingm., eg og háttv. þm. Snæf. (S. G.) hefðu varla komist í tæka tíð á þing. En hér stóð sérstaklega á, það var ólag á ferðum Faxaflóabátsins, sem ekki er hægt að draga neina ályktun af. Og við vorum á réttum tíma á vettvangi, jafnvel þó svona færi. Tveggja ára reynsla hefir og sýnt það, að allir hafa komist til þings, þrátt fyrir vond veður. Verð eg því að álíta, að þessari ástæðu hafi verið beitt af vöntun á öðrum betri. Ef menn vilja fá sem flestar stéttir á þing, er einmitt vetrartíminn sjálfsagðastur. Álitamál gæti auðvitað verið, hvort annar tími vetrar en nú er, gæti verið hentugri, en sumartíminn er ógerlegur, enda hið mesta þroskaleysi að hringla svo með gerðir þingsins á hverju ári.

Því hefir verið hreyft, að óskir hefðu komið fram á seinasta þingi um færslu þingtímans. Eg hefi ekki heyrt þær og býst ei við, að þær hafi mikið fylgi. Þá er enn sú ástæða færð, að alþingishúsið mætti nota fyrir háskólann, ef þingtíminn yrði fluttur. Í fyrsta lagi er nú þess að geta, að háskólinn tekur ekki til starfa fyr en eitthvað fé er veitt til hans, og mér er ei kunnugt, að það hafi verið gert. Virðist því nægilegt að breyta um tímann, þegar féð er veitt. En líka er þess að geta, að þetta hús mundi alls ekki fullnægja þeim kröfum, sem háskólinn mundi gera til húsakynna, og því hætt við, að ekki yrði tjaldað lengur en til einnar nætur, þó háskólinn tæki til starfa hér. Mér finst satt að segja, þegar svo virðuleg og nauðsynleg stofnun og háskóli kemst á, sem vonandi á sér ekki langt í land, hljótum við að reisa honum sæmilegt hús. Þar sem nú sá rekspölur er kominn á iðnað okkar, að hægt er að byggja að miklu leyti úr innlendu efni, verða menn að gæta þess, að því fé, sem til byggingarinnar er kostað, verður ekki kastað í sjóinn, heldur kemur það til íslenzkra iðnaðarmanna sjálfra og hjálpar þeim um atvinnu.

Þá skal eg nú minnast á þá aðalástæðu, sem stjórnin mun hafa haft til þess, að leggja frumv. fyrir. Eins og kunnugt er, var ráðherra mikið áhugamál að fá þingi frestað, til þess að losna við konungkjörnu þingmennina, og var það þá gott vopn og sæmileg ástæða til að bera fram við konung fyrir frestuninni, að stjórnarfrumv. væri á ferðinni um færslu þingtímans. En það varð nú ekkert af þessu, svo það mál er úr sögunni.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) gat þess við 1. umr., að ferðalög væru mikið erfiðari á vetrum og ilt að komast til þings úr kjördæmum. Því er nú svo varið með Austur-Skaftafellssýslu, að ferðalög þaðan eru altaf erfið. Háttv. þm. sagði og, að þótt póstarnir kæmust sinna ferða, væri það engin sönnun fyrir því, að þingmenn gerðu það, því ekki þyrftu þingmannshæfileikar og ferðamannahæfileikar að fara saman. Það er nú mikið rétt, en með póstana er því svo varið, að þeir eru ekki beztu ferðamennirnir. Þeir eru upp og niður, eins og aðrir, því að sú venja er komin á, að starfið er boðið niður og sá fær það, sem lægst býður, hvað sem hæfileikana snertir.

Þessvegna er ekki mikil ástæða að hverfa frá því, sem gert var 1905. Höfuðatriðið er, eins og eg tók fram, að þingtíminn sé valinn svo, að sem flestar stéttir landsins geti setið á þingum og kraftarnir því verið fjölbreyttir. En það er einmitt á vetrin. Reykvíkingum er ef til vill sama á hvaða tíma þing er, vilja kannske helzt sumarþing, en eftir vilja þeirra einna álít eg ekki að eigi að fara í þessu efni. Stjórnarfrv. eins og það er á að fella, enda munu flestir þingmenn vera á móti því, en eg get gjarnan stutt þá breyt.till., að þingbyrjun sé færð til 15. nóv., og mun greiða henni atkvæði mitt.