16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

84. mál, færsla þingtímans

Einar Jónsson:

Mér þykir sennilegt, að þótt háttv. þingmenn héldu áfram að ræða þetta mál langt fram á kvöldið, mundi eigi að síður verða ágreiningur um, hvaða tími sé heppilegastur þingtími. Þetta er líka eðlilegt vegna þess, að stéttirnar hér eru svo margar og atvinnuvegir þar af leiðandi mismunandi.

Vér höfum dómarastétt, prestastétt, læknastétt, bændastétt, iðnaðarmannastétt, kennarastétt o. fl. Einni stéttinni er hentugra, að þingið sé haldið á þessum tíma, en hinni á hinum. Ef litið er nú á, hvaða tími er yfirleitt hentugastur fyrir allar stéttir landsins, þykist eg ekki vera í vafa um, að það er einmitt þessi tími. Hann er að vísu mjög óhentugur kennurum og skipstjórum, en er hins vegar hentugastur öllum öðrum, eins og t. d. prestum, dómurum, læknum og bændum. Bændunum er þessi tími hentugastur og ódýrastur. Það er einnig athugandi, að sumartíminn er þreytandi til allra þingstarfa. Sumarsólin og sveitasælan er svo ógleymandi og verða menn þá þreyttir og illa fyrir kallaðir til þess að sitja á þingi eða við önnur þessháttar störf, enda vildu margir einmitt af þeirri ástæðu 1907, færa þingtímann frá 1. júlí til 15. febr. Verði þingtímanum breytt, hygg eg heppilegast, að hann verði settur 15. nóvember. Er eg fyrir mitt leyti mótfallinn öllum öðrum breytingum, eins og t. d. 15. maí og 17. júní. Eg hygg að vísu, að menn munu koma með þá mótbáru á móti 15. nóv., að jólin séu þá í þingtímanum, en því er að svara, að páskarnir eru í hinum núverandi þingtíma og tefja að líku skapi sem jólin gerðu annars. Það væri ef til vill hentugt, að láta þingið koma saman 1. nóv., svo að því gæti verið lokið um jólin; mundi þetta því hafa sparnað í för með sér.

Annars eru umræður um þetta mál þýðingarlausar, því að eg hygg, að háttv. þingmenn geti ekki orðið samdóma í því, hvort sem talað er um það lengur eða skemur.