16.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

84. mál, færsla þingtímans

Skúli Thoroddsen:

Eg vil geta þess, að þingmálafundur í Norður-Ísafjarðarsýslu hefir samþykt áskorun um að halda núverandi þingtíma óbreyttum, og mun eg því meðfram vegna þess greiða atkvæði gegn því að hann verði færður til.

Það var annars ræða hins hv. 2. þm. Árn. (S. S.), sem knúði mig til að standa upp. Hann sagði, að allar stéttir landsins ættu að eiga fulltrúa á þingi að réttu hlutfalli. Þetta getur satt verið, en þá verður líka hver stétt að eiga svo hyggna og sjálfstæða menn, að þeir geti verið sæmilegir fulltrúar hennar. Eg held raunar, að ekki sé mikið undir því komið, hverri stétt þingmaðurinn tilheyrir, hitt varðar mestu, hvernig hann lítur á málin og hvort hann hefir nægilega þekking á lífskjörum almennings. Slíka þekking getur embættismaðurinn haft ekki síður en bóndinn, og væri þá illa fallið að amast við þingsetu hans vegna þess eins, að hann er embættismaður. Þar að auki nægir þingmanninum ekki þekkingin ein, hann verður líka að hafa tilfinning fyrir þörfum almennings og löngun til að bæta úr því sem aflaga fer. Það fanst á orðum hins hv. þm., að honum þótti of margir ritstjórar á þingi, en til þess er að svara, að ritstjórar hafa mörgum fremur tækifæri til þess að afla sér þekkingar á landsmálum, og ættu því að geta verið liðgengir menn á þingi.

Þá mintist þm. á, að ófriður og órói stæði af embættismönnum á þingi, talaði um valdafíkn þeirra, launagræðgi o. s. frv. Eg skal ekki fara út í þá sálma, en vil að eins benda á, að fleira getur valdið óróa og óvissu á þingi, t. d. ef þingmenn brestur tilfinnanlega þrek og sjálfstæði til þess að standa við skoðanir sínar, eins og stundum vill verða.

Hinn sami hv. þm. tilfærði það sem ástæðu gegn því að færa þingtímann til sumarsins, að þá mundi verða farið fram á að hækka dagpeninga þingmanna. Út af því vil eg leyfa mér að taka það fram, að eg tel sjálfsagt að dagpeningarnir verði hækkaðir, hvað sem þingtímanum líður. Þeir voru sómasamlegir fyrir hálfri öld, en eru nú allsendis ónógir, svo mjög sem flestar vörur hafa hækkað í verði og lifnaðarhættir að mörgu leyti breytst. Það tjáir ekki að láta smásmygli alþýðunnar hafa áhrif á sig í þessu efni. Almenningi er tamt að sjá mjög ofsjónum yfir peningatekjum annara; í útsvarskæru hefir það t. d. verið tilfært um sýslunefndarmann, að hann hefði 2 kr. í dagpeninga á sýslunefndarfundum! Þingmenn eiga ekkert tillit að taka til slíkrar smásmygli.

Annars hefir mál þetta verið svo rækilega rætt, að menn eru víst búnir að mynda sér fasta skoðun á því, og virðist því óþarfi að lengja umræður um það meir en orðið er.