27.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1467 í B-deild Alþingistíðinda. (1843)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Flutningsm. (Sigurður Sigurðsson):

Það er eigi ósennilegt, að frv. þetta veki meiri áhuga meðal þingm. en horfellislögin. — Á síðasta þingi var komið fram með frv. svipað þessu, en varð ekki útrætt.

Alkunnugt er það, að skoðun almennings er sú, að eftirlaun embættismanna ættu sem allra fyrst að afnemast, en þó sérstaklega eftirlaun ráðherra. Þeir eru sjaldan lengi við völdin og geta því komið margir á eftirlaun. Það er því bráðnauðsynlegt að afnema, eða að minsta kosti að lækka mikið eftirlaun ráðherra. Meðal annars er mælir með því, er það, að þá mælist betur fyrir, þó ráðherraskifti verði. Á síðasta þingi var því haldið fram, að stjórnarskrárbreytingu þyrfti til þess að afnema eftirlaun ráðherra, og mun það rétt álitið. En í frumv. þessu er ekki farið fram á afnám eftirlaunanna, heldur aðeins að lækka þau niður í 1200 kr. og virðist það vera sanngjarnt og mjög hóflega á stað farið. Vona eg að deildin sýni, með því að styðja þetta mál, að sá orðasveimur sé ekki á rökum bygður, að til séu hér á þingi menn, er keppa að því, að ná í ráðherraembættið vegna eftirlaunanna. Hafi sá orðrómur við rök að styðjast, þá er það enn ástæða til þess að styðja frumvarpið, að það nái fram að ganga. Óvíst enn, hvernig fer um hinar fyrirhuguðu breytingar á stjórnarskránni, og má því eigi bíða með þetta mál eftir þeim. Og þó að stjórnarskrármálið verði samþykt, verður að breyta eftirlaunaákvæðinu nú þegar vegna hinna væntanlegu ráðherraskifta. Hér er því að ræða um bráðabirgðalög, sem eru bráðnauðsynleg. Álít ekki nauðsynlegt, að skipuð sé nefnd í málið, en vænti þess, að því verði vísað til 2. umr.