02.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Hannes Hafstein:

Eg vil að eins gera fyrirspurn til flutningsmanna, um skilning á ákvæðinu um eftirlaun ráðherra Íslands.

Það er ákveðið í frumv., að ráðherra skuli hafa 1000 kr. í eftirlaun. Er það meiningin, að hann skuli hafa þessi eftirlaun, hvernig sem á stendur, sem viðbót við laun, verði hann embættismaður síðar, eða viðbót við önnur eftirlaun, hafi hann eftirlaunarétt áður? Eða er það meiningin, að þó að hann hafi áður en hann verður ráðherra, rétt til hærri eftirlauna, en ráðherraeftirlaun þau, sem hér eru tiltekin, þá skuli hann missa þann rétt og að eins fá 1000 kr., hvorki meira né minna? Í þessu frv. er sem sé engin skírskotun til ákvæða almennra eftirlaunalaga um þetta efni, heldur blábert skipað, að ráðherrar skuli hafa þessa eftirlaunafúlgu, sem frumv. greinir. Það virðist því ekki vanþörf á frekari skýringu á því, hvað flutningsmenn hugsa sér með þessu. (Björn Jónsson og Jón Þorkelsson: Hann hefir rétt til embættiseftirlaunanna).