22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1474 í B-deild Alþingistíðinda. (1862)

22. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Jón Þorkelsson:

Eg sé að enginn, hvorki framsögumaður né aðrir, úr nefndinni er staddur hér inni í deildinni nema eg og vil eg því leyfa mér að gera nokkra grein fyrir breytingum þeim, sem frumv. hefir fengið hjá háttv. efri deild.

Okkar frumv. mælti svo fyrir, að ef ráherra hefði gegnt öðru embætti, áður en hann varð ráðherra og hann hefði haft rétt til hærri eftirlauna fyrir þjónustu í því embætti, þá átti hann að hafa rétt til þeirra eftirlauna einna. En efri deild hefir breytt þessu á þann hátt, að ráðherra skuli hafa rétt til hvorttveggja eftirlaunanna fyrir að vera ráðherra og einnig eftirlaunanna fyrir það embætti, sem hann hefir áður þjónað. Er það gagnstætt því, sem sannlegt má sýnast. Við höfum þess vegna leyft okkur að færa frv. til þess efnis, sem það hafði, þegar það fór héðan úr deildinni. Nefndin áleit, að það hefði ekki verið tilgangur deildarinnar, að ráðherra skyldi hafa tvenn eftirlaun. Það er einnig í samræmi við það, sem tíðkast hefir, að embættismenn hafi að eins ein eftirlaun — og jafnan hin hæstu —, þótt þeir hafi þjónað fleiri en einu embætti.

Eg vona því, að deildin samþykki frv. að efni til, eins og hún samþykti það síðast, áður en það fór til efri deildar.