20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

97. mál, eftirlaunahækkun

Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.:

Eg er sömu skoðunar og háttv. þm. Snæf. (S. G.), að óþarfi sé að ræða þetta mál nú, þar sem það verður mjög bráðlega tekið fyrir.

Út af ræðu háttv. flutningsm. (S. S.), þá skal eg geta þess, að eg álít það ekki rétta tilgátu, að þingið mundi veita eftirlaun, þó að þau verði afnumin.

Eg hygg, að menn á annan hátt geti trygt sér lífeyri, t. d. með sérstökum sjóð, eins og á sér stað hjá barnakennurum. Það er álit almennings, að eftirlaunin beri að afnema, launin séu embættismönnunum nóg. Og eg skil ekki í öðru en ef h. 2. þm. Árn. (S.S.) býður sig aftur fram til þings, að það verði eindreginn vilji kjósenda hans, að hann verði með afnámi eftirlauna, svo að þetta frumv. hans mun virðast þeim harla þýðingarlítið.

Það þýðir ekki að þrátta um það, þótt einhverjir agnúar séu á afnámi eftirlauna. Þetta er eindreginn vilji þjóðarinnar, sem hefir sýnt sig og mun sýna sig enn gleggra á næstu þingmálafundum. Sá tími er kominn, að það verður að fara að vinda bráðan bug að þessu, og frv. þetta er því alveg óþarft.

Eg vil helzt skora á hv. flutningsm. að taka það aftur.