03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (1870)

158. mál, eftirlaunaafnám

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Það gladdi mig, að háttv. framsögum. var því mótfallinn, að frumv. yrði haldið áfram á þessu þingi. Tillaga sú, sem hér er komin fram er allgóð, en margt er þó athugavert við hana. Mér finst að embættismönnum ætti að vera það frjálst, hvernig þeir sjá fyrir sér og sínum. Þó gæti auðvitað komið til mála að skylda þá til þess að leggja í ellistyrkssjóð, ef landssjóður legði einnig í þann sjóð að sínu leyti; en hitt finst mér of nærgöngult að leggja embættismönnum slíka skyldu á herðar, án þess að hið opinbera leggi neitt til á móts við þá. Eg skil ekki, að nauðsynlegt væri að gera gagngerða endurskoðun á launakjörum embættismanna, þótt slík breyting gengi fram. — Eg býst við, að eg greiði atkv. með tillögunni, þótt eg sé ekki allsendis ánægður með hana.