03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (1872)

158. mál, eftirlaunaafnám

Framsm. (Sigurður Sigurðsson); Háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) þótti hart að skylda embættismenn til þess að leggja í ellistyrkssjóð handa sjálfum sér. Eg hefi heyrt þessari skoðun haldið fram áður, en hún hefir ekki við neitt að styðjast. Í þessu efni er að verða stefnubreyting í heiminum. Menn eru skyldaðir með lögum til þess að safna sér ellistyrk. Að því er okkur Íslendinga snertir í þessu efni, þá nægir að benda á ellistyrktarsjóðslögin frá síðasta þingi. Eg er samdóma háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) um það, að varhugavert sé að afnema eftirlaun embættismanna með öllu, ekki sízt, þegar á það er litið, að sú skoðun er alment að ryðja sér til rúms, að sem flestir eigi að geta orðið ellistyrks aðnjótandi. Allir munu viðurkenna, að óviðkunnanlegt væri að embættismenn fari á sveitina, þeir eru starfsmenn þjóðarinnar og ætti því landssjóði að vera skylt að sjá fyrir þeim á einhvern hátt, annaðhvort með eftirlaunum eða þá með því að launa þá svo, að enginn gæti talið ósanngjarnt, þótt þeim væri gert að skyldu að safna sér ellistyrk.

Reynslan sýnir nú, að flestir embættismenn gera lítið betur en komast af. Ef til vill gætu sumir þeirra lifað sparlegar en þeir gera, en flestir munu þeir þó ekki vera neinir óhófsmenn. En hvað sem nú segja má um þetta, þá er óskynsamlegt að afnema eftirlaunin, nema eitthvað annað komi í staðinn. Ef menn hafa þetta fyrir augum, vona eg, að þeir geti greitt atkvæði með tillögunni. Hún gengur að vísu í þá átt, að afnema öll eftirlaun, en gerir hinsvegar ráð fyrir að skylda embættismenn til þess að safna sér ellistyrk.