13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (189)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Ari Jónsson:

Það mun mörgum finnast í meira lagi undarlegt og óviðunandi, er nefndin í því máli, er hér er til umræðu, fer þess á leit við deildina að hún felli úrskurð að órannsökuðu máli. Mörgum mun þykja það ósanngjarnar kröfur til háttv. deildar, að hún kveði upp úrskurð í þessu máli áður en fullkomin rannsókn á því hefir farið fram. En eg held, að allir séu sammála um, að málið sé ekki fullrannsakað. Því til sönnunar má fyrst minna á nefndarálitið; það játar berum orðum að málið sé ekki rannsakað til fullnustu enn. Umræðurnar hafa leitt hið sama í ljós. Háttv. framsm. meiri hluta nefndarinnar kannaðist við, að margt og mikið væri enn órannsakað í því. Eg verð að endurtaka það, sem eg sagði, að það er ósanngjarnt að ætlast til þess, að vér leggjum dóm á málið, áður en öll gögn þess eru fyllilega könnuð, þá fyrst eigum vér að kveða upp úrskurð um það, er öll kurl eru komin til grafar.

Á þessu máli eru tvær hliðar: Önnur er „formel“, hin er „reel“. Eg lít fyrst á form. hliðina. Á það munu allir sáttir, að hin alkunna stjórnarathöfn 22. nóv. 1909 — afsetning gæzlustjóranna — hafi verið heimil, eftir þágildandi lögum, fullkomlega heimil „um stundarsakir“. En leiðir skilja og skoðanir skiftast, þegar ræða er um, hvort löglegt hafi verið að varna gæzlustjórunum að setjast í sæti sín í Landsbankanum 1. jan. 1910. Þá voru ný lög um þetta efni gengin í gildi. Og nú eru margir þeirrar skoðunar, að þau lög geti ekki haft áhrif á stjórnarathöfn, er framkvæmd var eftir eldri lögum, en aðrir halda hinu gagnstæða fram. Sakir þessa ágreinings var málinu vísað til dómstólanna. Það er, sem kunnugt er, 3 stig, er málið þarf að fara um, áður en því er lokið. Það er nú komið yfir 2 stigin — og er á leiðinni upp 3. stigið. Dómur hefir verið kveðinn upp í því í undirrétti og yfirrétti, og það er nú fyrir hæstarétti. Stjórninni hefir verið legið á hálsi fyrir, að hún hefir leitað æðsta dómstóls landsins til að skera úr þessu máli. En þeir sem halda slíku fram, sem ávíta stjórnina fyrir þá athöfn, hafa sjálfir notað þenna dómstól og enginn ásakar þá fyrir það. Hví má stjórnin þá ekki gera hið sama? Það er furðu lítið, sem menn hafa að ásökunarefni gegn stjórninni, er þessu er beitt gegn henni.

Þingið á um tvent að velja í þessu máli. Þingið getur útkljáð bæði hina „formellu“ og „reellu“ hlið þess. En það getur líka snúið sér til dómstólanna með deiluna um formatriði þess, látið þá skera úr henni, samþykt gerðir landstjórnarinnar að því leyti, látið málið halda áfram fyrir dómstólunum og beðið átekta og séð hvaða úrskurð æðsti dómstóll landsins leggur á þetta mál. Og hví skyldum vér eigi láta málið halda áfram fyrir dómstólunum, og sjá hvað æðsti dómur landsins gerir í því. Það er varhugavert, að þingið fari að taka fram fyrir hendurnar á dómstólunum, og gera nú úrskurð um málið, ekki sízt er það er órannsakað, eins og eg tók fram áðan. Það væri annað mál, ef deildin hefði kosið gæzlustjórana á ný, eða aðra, er henni þætti fallnir til að gegna þessari stöðu.

Þá kem eg nú að hinni „reellu“ hlið málsins. Ef skera á úr, hvort gerðir stjórnarinnar í því eru réttmætar, verður aðallega að líta á hana. Hún er aðalatriði málsins. Það, sem fara verður eftir í því efni, er skýrsla rannsóknarnefndarinnar í bankamálinu og svör bankastjórnarinnar. Á þeim verða þingmenn að byggja og á þeim verða allir að byggja, er vilja skapa sér skoðanir í því máli, er hér ræðir um. En þessi gögn eru ekki nægileg, enda erum vér allir á því að rannsaka þurfi málið enn — og eg hefi alt af verið eindregið á þeirri skoðun að skipa ætti rannsóknarnefnd í málið hér á þinginu. En mér þótti réttara að slík nefnd væri skipuð í Nd., en ekki Ed. Hér er svo ástatt, að tveir málsaðilar eiga hér sæti og atkvæðisrétt, en þannig er því ekki farið um hinn málsaðilann, stjórnina. Hún greiðir hér ekki sjálf atkvæði. Enn er einn háttv. þingdm. hér, sem er náskyldur öðrum hinna fráviknu gæzlustjóra. Því hefði átt betur við, eins og eg sagði, að 5 eða 7 manna nefnd hefði verið skipuð í málið í Neðri deild, sem tekið hefði það til rannsökunar og athugunar. En það fór nokkuð á annan veg. Hér var kosin nefnd í málið — og bráðabirgðarálit hefir nú birzt frá henni, en ekki heldur meira. Og þrátt fyrir það fer nefndin fram á það við háttv. þingdeildarmenn, að þeir úrskurði um málið.

Stórvægileg atriði í því eru órannsökuð enn. Eg minni fyrst á víxlakaup starfsmanna bankans. Nefndarálitið hefir ekki haggað við, að þar væri sumt athugavert, en að eins reynt að gera lítið úr brotinu. Þá er annað atriði, og það er veðsetningin á varasjóð bankans — og það er mikilvægt atriði. Á það minnist nefndarálitið alls ekki; þar eru þó ýms rök, er fá þyrfti vitneskju um. Er það satt, að móttökuskírteini frá Landmandsbanken fyrir afhending verðbréfanna hafi legið í Landsbankanum og að Tryggvi Gunnarsson hafi sagt, að Kristján Jónsson bæri ábyrgð á þessu? Er það satt, að Kristján Jónsson hafi neitað þessu opinberlega, og er það satt, að honum hafi seinna farist svo orð, að hann hafi sagt þetta í „Kampens Hede“? Um þetta þarf að fræða menn. Annars má svo að orði kveða um margar staðhæfingar, er menn hafa látið sér um munn fara hér í deildinni í dag, að þær eru sagðar í „Kampens Hede“. Þá er enn eitt atriðið og það er tap bankans. Það kom fram í ræðu háttv. framsögum. (L. H. B.) hér í dag, að nefndin hefir ekki leitað álita þeirra manna, er bezt gætu um þetta sagt, sem sé núverandi bankastjóra.

(Kristján Jónsson: Ætli skýrslum þeirra sé treystandi?)

Þá var nefndarinnar að rannsaka slíkt. Þá hefðu menn líka þurft að kynna sér umsögn dönsku bankastjóranna, áður en feldur er úrskurður í þessu máli, en það hefir rannsóknarnefndin ekki gert.

(L. H. B.: Þingmaður Akureyrar hefir sagt þetta áður).

Háttv. „fimti“ má þakka fyrir, ef eg endurtek eitt það mikilvægasta, því svo skilningssljór virðist hann vera, eftir ræðum hans að dæma, að honum veitir sannarlega ekki af að heyra það oftar en einusinni, svo það verði honum ljóst.

Eg þykist sjá að hér eigi að beita valdi og deildin ætli að kveða upp úrskurð um mál, sem játað er um, að sé ekki fullrannsakað. Eg ætla því að leyfa mér að bera upp rökstudda dagskrá um að vísa málinu aftur til nefndarinnar, af því að það er ekki fullrannsakað. Eg geri það ekki af því að eg búist við, að hún verði samþykt, heldur af því að mig langar til að sjá, hverjir vilja láta öll kurl koma til grafar áður en dómur er uppkveðinn.