18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1892)

120. mál, farmgjald

Pétur Jónsson:

Eg get ekki stilt mig um að segja fáein orð, enda þótt eg búist ekki við, að mikið mark verði tekið á þeim í þessu máli. Á þessu þingi hefir verið mikið þrefað um það, bæði í nefndum og í háttv. deild sjálfri, hvernig ætti að bæta úr þörfum landssjóðs. Mun þetta frumv. vera komið fram til þess að bæta úr þeim.

Mig furðar stórlega á, hversu mikið hefir verið rætt um frv., án þess að minnast einu orði á tillögur milliþinganefndarinnar í skattamálum, sem enn liggja í salti. Býst eg við, að einhverjir háttv. þm. hafi lesið álitsskjal nefndarinnar. Að vísu hefir þingið tekið til greina nokkrar af tillögum hennar, eins og t. d. um tollinn og sóknargjöld 1909 og nú stjórn og þing um aukatekjur og erfðagjald. En aðalstarfi milliþinganefndarinnar hefir ekkert verið sint fremur en það væri ekki til. Þingið hefir því haft till. nefndarinnar bara til að skeina sig á.

Frumv. þetta er umfangsmikið mál og slíkt nýmæli, að búast mætti við, að ekki væri minni vandi að kasta því inn á þingið en tillögum skattamálanefndarinnar, um fasteignaskatt, eignarskatt og tekjuskatt. Eg efast um, að þetta frumv. gefi meiri tekjur en hin frumv. 3, og að minni hyggju er það í miklu meiri óvissu. Þessir 3 skattar gefa þegar eftir áætlun 125 þús. kr. á ári og mun sú áætlun á góðum rökum bygð. En ég skil ekkert í, hvað menn hafa fyrir sér um upphæð farmgjaldsins, og það hefir ekki verið sýnt. Ef þingið samþykti þetta frumv., væri slíkt hreinasta vantraust til milliþinganefndarinnar, og eg skil ekki, að einn af meðlimum hennar skuli vera því fylgjandi. Eg skil ekki, hvers vegna er verið að setja milliþinganefndir, þegar þingið virðir tillögur þeirra að vettugi.

Milliþinganefndin athugaði alt skattamálið í heild og hún hefir undirbúið þessi áðurnefndu frv. sín eftir beztu föngum og með rækilegri íhugun. Hún hefir líka athugað þetta farmgjald og var öll sammála um, að ekki væri gerlegt að leggja það á. Hins vegar greindi nefndina á um, hvað upp skyldi taka, til þess að auka tekjur landssjóðs vegna aðflutningsbannsins, og virtist meirihlutanum tiltækilegast, þótt ekki væri gott, hækkun enn á kaffi- og sykurtolli, en mér aftur á móti alment verzlunargjald eða verðtollur. Og þótt meiri hluti nefndarinnar væri á móti því, taldi hún það þó nær sanni en farmgjald. Eg hefi nú ekki haldið fram verzlunargjaldinu að þessu sinni af því, að það gat ekki komið til mála, fyr en þeir aðalskattar voru komnir á, sem milliþinganefndin kom með tillögur um. Eftir fjárhagsyfirliti milliþinganefndarinnar átti ekki að þurfa að koma til þess, að verzlunargjalds eða farmgjalds þyrfti með, ef aðrar tillögur hennar yrðu til greina teknar.

Svo kom aðflutningsbannið, og væntanleg tekjuþurð við það. Álít eg mér óskylt að koma með tillögur til tekjuhækkunar í staðinn, af því eg var banninu mótfallinn. Nú skilst mér, að farmgjald þetta eigi að vera til bráðabirgða að eins. En þess er engin þörf. Frestun bannlaganna um 2 ár liggur nær, eins og milliþinganefndin benti á. Þessvegna er engin þörf á því, sem einungis er til bráðabirgða. Hitt er vandi að finna það, sem lengi á að standa, eftir að vínbannið er til fulls komið á.

Nú vil eg spyrja hv. deild, hvort henni finnast líkur til, að frumv. þetta hafi réttari grundvöll til aukningar á tekjum landssjóðs, en tillögur skattamálanefndarinnar?

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) hefir bent á svo marga galla á frv., t. d. þá, að hægt væri að villa til um vöruflokka á ýmsan hátt. Eg ætla ekki nánar en hann gerði, að skýra frá þess konar göllum frumv. og þá mætti eitthvað laga, ef grundvöllur frumv. væri þess virði. En farmgjald þetta hefir alla þá galla, sem alment tollkerfi hefir með öðrum þjóðum, þar sem er t. d. þyngdartollur á iðnaðarvörum. Það greinir vörur í tollflokka með mjög mismunandi gjaldi, svo að ekki verður komist hjá dýrri tollgæzlu, sem etur upp mikið af tekjunum, eins og almenn reynsla er. Það hvílir ósanngjarnlega á vörum, af því það er þyngdartollur, en ekki verðtollur. Það er verndartollur fyrir stöku vörur, t. d. iðnaðarvörur, sem það kemur allþungt á, en verkar þveröfugt á innlendan iðnað í öðrum greinum, þar sem það hvílir tilfinnanlega á aðfluttum hrávörum, t. d. járni og þetta er alt af handahófi. Það hefir því engan þann grundvöll, sem alment er þó heimtað, að skattar og tollar hafi.

Þegar leggja á alment tollgjald á vörur, þarf mikillar íhugunar við, til þess það komi heppilega niður og miði í rétta átt; slíkt má ekki gera af handahófi. Frumv. þarf því meiri íhugunar og yfirvegunar við, en skattatillögur milliþinganefndarinnar, sem enn geymast í skúffu stjórnarráðsins. Þau frumvörp eru íhuguð og hafa almennar og viðurkendar grundvallarreglur að hvíla á. Hefði því verið minna vandaverk fyrir skattamálanefndina á þessu þingi að taka þau upp.

Eg býst ekki við, að það hafi neina þýðingu, að fara fleiri orðum um frv. Hefi eg látið í ljósi álit mitt og skal hér því staðar numið.