18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1893)

120. mál, farmgjald

Björn Kristjánsson:

Það hefir nú þegar verið talað allmikið um þetta mál, og frumvarpið hefir fengið harða dóma, sérstaklega hjá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) og hélt hann því fram, að þetta væri að gerbreyta stefnunni í tollmálum. Eg þóttist þó skýra það nokkurn veginn greinilega, hvers vegna þessi leið var farin og hvers vegna það var óumflýjanlegt og ekkert það er komið fram, er sýni að það hafi ekki verið á rökum bygt. Hér er engin tollgæzla, og ef tollarnir eru háir, þá eiga menn það alt af á hættu, að hátolluðu vörurnar verði fluttar inn í umbúðum utan af alt öðrum vörutegundum, þar er ætíð hægurinn hjá. Það má flytja inn brennivín í steinolíutunnum, og það hefir verið gert. Þess vegna er nauðsynlegt að tolla margar vörur, en tolla þær smátt. Eða er það ekki bersýnilegt, að ekkert hefir gætt hækkunarinnar síðast á vínfangatollinum, þar sem tekjuhallinn er 100 þús. á þeim lið, og færði Ed. þó niður áætlunina?

Háttv. þm. sagði að leiðirnar væru tvær. Önnur sú, að leggja háan toll á fáar vörur, en hin að tolla margar, og þá lentu menn í verndartollum. Það má nefna vörutegundir, eins og limonade og sodavatn, sem nú er verið að tolla, á því getur jafnvel lítill tollur orðið verndartollur, og svo er um fleiri vörur, þar sem iðnaður er mikill og framleiðsla, og þegar tollurinn er orðinn svo hár, að varan þoli það, að vera tilbúin í landinu sjálfu, þá er verndartollurinn kominn. Það mætti t. d. vel framleiða hér sykur, flytja hingað sykurreyrinn, chocolade o. fl., tollurinn er nógu hár til þess. Sú eina af okkar hátolluðu vörum, sem við gætum aldrei framleitt, væri kaffið. Hinar mætti flestar búa til hér, svo það er valt, að álíta að þetta frumvarp leiði fremur til verndartolla, en annað. Það er einmitt þvert á móti, þar sem gjaldið er svo lágt. Í sjálfu sér er verndartollur sá tollur, sem lagður er á til þess að vernda atvinnu manna í landinu sjálfu, og sé eg ekki svo mikið á móti því, þótt þetta gæti miðað til þess að einhverju leyti, enda fylgja þeirri stefnu margir, en annars er tæplega um það að ræða, að tollar verði hér til þess, að hlynna að einstökum stéttum, því að ekki erum vér farnir að búa til sykur enn þá þrátt fyrir hinn háa toll. Alt þetta verndartollshjal hins háttv. þm. er eintómur reykur.

Háttv. þm. sagði, að þegar breyta ætti tolllögunum svo mjög, þyrfti mikla vandvirkni, og veitti ekki af milliþinganefnd, þannig sé farið að í öðrum löndum. En sú nefnd hefði ekkert haft annað né meira að byggja á, en þær skýrslur, sem eg hafði fyrir mér. (Jón Ólafsson: Á hverju byggir þá þm. flokkunina?) Eg skal koma að því síðar. Hann fann að því, hve litlu muni á tollinum eftir verðhæð vörunnar, og að t. d. allskonar pappír sé jafnhátt tollaður, hvort sem það er umbúðapappír, eða fínn skrifpappír. Eg vil nú spyrja, hvernig hann hugsar sér að búa til frumv. með jafn nákvæmri sundurgreiningu og á sér stað í öðrum löndum, þar sem við höfum enga tollþjóna. Ef þetta frumv. hefði verið borið fram á Þýzkalandi, þá hefðu ekki alls konar ritföng verið höfð í sama flokki og allur pappír, en þetta er nauðsynlegt í þessu landi, þótt háttv. þm. sé svo ókunnugur því hvernig hér á stendur, til þess að öll innheimta lendi ekki í vandræðum og verði ekki of kostnaðarsöm og vafasöm. Hér er ómögulegt að greina að pappír og ritföng. Því er það og, að glerílát eru öll í sama flokki, sprottið af hinu sama, er eg nefndi áðan. Það hefir verið reynt að taka tillit til innkaupsverðsins, en hins vegar opt orðið að beygja frá því að leggja á verðmætið, til þess að tollgæzlumenn séu ekki í eilífum vafa, heldur geti fljótt fundið til hvaða flokks varan telst, samkvæmt heiti þeirra á farmskránum. Heiti varanna á farmskránum hlaut að vera að nokkru leyti grundvöllurinn undir flokkaskiftingunni til þess að geta gert innheimtuna sem óbrotnasta og sem vafaminsta.

Hann mintist á 5. flokk, baðmullargarnið o. fl. Alt í þessum flokki eru dýrar vörur, og baðmullargarn er ekki sent sérstaklega nema stundum, og ullargarn ekki heldur. Það er ómögulegt að aðskilja þetta, því að oft koma fleiri tegundir af slíkum vörum í einni sendingu. Á hinu er minni hætta, að vörur, sem heyra til sínum flokknum hvor, komi í sömu umbúðunum, enda munar þá ekki ýkja miklu, hvort goldið er 10 aurum meira eða minna af hverjum 100 pundum, þar sem gjaldið er svo lágt.

Háttv. þm. þótti það kýmilegt, að kassi með úrum væri tollaður, eins og það væri »sódi«. Það er nú með úrin líkt og silkið, sem áður var talað um hér, að af þeim kemur svo lítið hingað, að þess gætir ekki, enda er ómögulegt að greina þau frá ýmsum glysvarningi. Til þess þyrfti fullkomna tollgæzlu, en það varð að forðast. Og hvers vegna eru úrin ekki tolluð nú? Máske hinn háttv. þm. vildi fræða mig á því? Þá fanst honum það afar merkilegt, að svo er ákveðið í frumvarpinu, að eigi skuli gjalda af þeim vörum, er ónýtst hafa á leiðinni, og telur hann það koma í bága við ákvæði 4. greinar um það að gjaldið skuli greiða strax. En þetta er nákvæmlega, eins og í núgildandi tolllögum, 7. og 9. gr., þar sem ákveðið er að varan skuli vera undanþegin tolli, ef það sannast, að hún sé ónýt, og í annan stað, að tollurinn skuli greiðast þar sem varan er flutt úr skipi. Þetta þekkir hinn háttv. þm. sýnilega ekki. Mörg orð í þessu frumv. eru nákvæmlega hin sömu og nú eru í lögum. Svo er um heimildina í 8. gr. til þess að selja vörurnar án undangengins lögtaks eða fjárnáms. Það er nákvæmlega sama og nú á sér stað, og ef þetta er óheppilegt, þá eru tolllögin illa til búin, og var þó vandað til þeirra, þau borin undir ýmsa lögfræðinga, þar á meðal þá verandi bæjarfógeta hér, sem er glöggur maður. Ef einhver smáatriði kynnu að vera, sem ekki eru í samræmi við tolllögin, þá má breyta því við 3. umr. En um það, sem sameiginlegt er með þessu frumvarpi og tolllögunum, og gallar þykja, verð eg að segja, að það hefir ekki orðið að miklu tjóni, því að það hefir alt gengið vel hingað til laganna vegna.

Um »monopol«-löggjöfina get eg verið stuttorður. Það má deila um það, hve mörg eða fá ár þurfi til þess að komast inn í tóbakstilbúning, eða steinolíusölu, en mín skoðun er að það taki langan tíma. Aðalhagnaðurinn ætti að verða af tóbaksgerðinni, en til hennar þarf mikla kunnáttu.

Menn segja að hægra sé að hafa eftirlit með þeim vörutegundum, sem nú eru tollaðar, en hinum, er frumvarpið telur. Reynslan sýnir einmitt hið gagnstæða. Nú er ekkert eftirlit, sem dugir, eða að minsta kosti er miklu skotið undan, þrátt fyrir það litla eftirlit sem er. Það er venjulega látið nægja, að hafa tölu á stykkjunum, og það, að vörutegundin er venjulega rétt gefin upp, liggur í því, að í Danmörku og Englandi eru hafðar strangar gætur á því, hvaða tollskyld vara er flutt um borð. Á Englandi heimtar tollgæzlan jafnvel reikninga yfir útflutta vöru frá þeim sem senda. Í Þýzkalandi er öðru máli að gegna, þar sem útfluttu vörurnar flytjast burtu í fríhöfn, þar sem tollgæzlumenn hafa ekki eftirlit, en hins vegar er byggt á ströngum lögum um skýrslur frá eiðsvörnum skipsmiðlum, sem hafa aðhald og hvöt til þess að skýra rétt frá.

Eg get ekki verið að eltast við alt, sem háttv. þm. sagði. Hann talaði meðal annars um peningaskápa handa embættismönnum, en eg vil benda honum á það, að þeir yrðu gjaldfrjálsir, eins og alt annað, sem flutt er inn í landssjóðs nafni. Það getur vel verið, að 100 kr. sektaákvæðið fyrir að flytja vörur úr skipi ólöglega, sé of lágt, en það er, eins og svo margt annað, tekið upp eftir tolllögunum.

Eg hefi þá svarað aðalatriðunum í ræðu þessa háttv. þm., og skal þá minnast á ræðu háttv. þm. S.-Þing. (P. J.).

Hann talaði í líka átt og hinn og var aðalmergurinn málsins hjá honum sá, að láta í ljósi óánægju sína yfir því, að nokkur hér í deildinni skyldi hafa aðhylst þetta frumvarp, eða yfirleitt nokkuð annað en tillögur skattamálanefndarinnar. Álítur hann, að það sé nokkurs konar vantraustsyfirlýsing til hennar. Eg verð að mótmæla því, að svo sé. Það er engin vantraustsyfirlýsing, þótt ekki sé alt tekið til greina, sem nefndin hefir sagt, og þótt hún sé milliþinganefnd, verður hún að sætta sig við það, að þingið hafi sitt álit, og beygja sig fyrir því. Annars væri ástæðulaust að leggja hennar álit fyrir þingið. Og þar sem hann leggur til að taka heldur »faktúrugjaldið«, en þetta, þá hlýtur slíkt að vera sprottið af mjög miklu þekkingarleysi. Það játa allir, líka þeir sem eru á móti farmgjaldinu, að faktúrugjaldið sé alveg ómögulegt hér, enda má sjá það með einföldum dæmum. Ef sá, sem sendir vöru, er búsettur í Hamborg en viðtakandi hér, þá getur sendandi gefið hvaða reikning sem hann vill og getur enginn krafið hann um rétta skýrslu, hversu falsaðir sem innkaupareikningar hans kunna að vera. Stundum býr faðirinn erlendis, en sonurinn eða verzlunarstjóri hans tekur við reikningunum hér. Slík verzlun getur leikið sér að því að draga undan svo mikið af verðmæti vörunnar á reikningum sínum, sem hún vill, án þess nokkurri rannsókn verði við komið, einkum ef sendandinn á heima utan Danmerkur.

Annars skal eg nú ekki fara frekar út í það, sem hann sagði, það er þýðingarlaust. En hins skal eg geta, að eg tek aftur breyt.till. á þgskj. 409, nema þá við 2. gr., að orðin »í Reykjavík« falli burt.