18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

120. mál, farmgjald

Frsm. minni hl. (H. Hafstein):

Það sem framsm. meiri hl. (B. Sv.) var að tala um, skal eg láta liggja á milli hluta. En hinu verð eg að svara, sem háttv. meðmælendur frv. halda fram, að ein helzta ástæðan til að samþykkja frumv. þetta sé sú, að við höfum ekki sérstakt tolleftirlit, og að þess gerist ekki þörf, þótt þetta frumv. sé samþykt! En það er einmitt, einmitt ein af sterkari ástæðunum móti frv., að alómögulegt er að framfylgja því, nema með sérstaklega fjölmennu tollgæzluliði, sem við ekki höfum. Ef háttv. flutningsm. (B. Kr.) hefði haldið sér við hina upphaflegu tillögu sína frá síðasta þingi, að leggja reglulegt farmgjald á — sama gjald á tiltekinn þunga allrar innfluttrar vöru, hverrar tegundar sem er — þá hefði ef til vill mátt segja, að til slíks þyrfti ekki sérstakt tollgæzlulið. En þessi flokkaskipun, sem nú er komin, með mismunandi gjaldi á mismunandi vörum hlýtur að þurfa eftirlits. Það er alls ekkert hægt á því að byggja, þótt slampast hafi af tollgæzlulaust við þær fáu vörutegundir, sem nú tollum vér, því að þar höfum vér notið og njótum aðstoðar danska tollliðsins, sem hefir búið til fyrir okkur sérstakar tollskrár fyrir hvert skip og hverja höfn, yfir þessar vörur. Og að því er England snertir, hittist svo á, að einmitt sömu vörurnar eru tollvörur þar í landi og eru því færðar í tollpappíra skipa. En sérstakar skrár frá tollstjórnum annara landa yfir allar vörur, sem hér er um að ræða, er alls ekki unt að fá.

Hinn háttv. aðalhöfundur frv. (B. Kr.) sagði, að hann væri búinn að rannsaka, hversu mikið erfiði það væri fyrir innheimtumanninn að innheimta tollinn eftir þessu frv., sagði að það hefði tekið sig eina klst. að flokka einhverja lengstu farmskrá, sem hingað hefði komið. Þetta er nú svo. En hversu lengi myndi hann hafa verið að flokka, ef skipstjóri hefði svikist um að koma með nokkra farmskrá? Þá hefði sjálfsagt þurft að flytja vörurnar í land og »sortera« þær allar. Hversu langan tíma hefði það tekið, eða hvað hefði það kostað? Ef farmskrá er ekki með skipi, sem vel getur komið fyrir af ýmsum ástæðum, — hún getur hafa glatast eða gleymst, orðið eftir á öðrum höfnum, sem skipið hefir komið á o. s. frv., eða ef farmskráin er bersýnilega röng eða ónákvæm — þá verður að »sortera« vörurnar upp á landssjóðs kostnað og því er ekki hægt að framkvæma þessi lög, nema með tollgæzluliði. Lögin mundu verða til háðungar og athlægis ella.

Háttv. framsm. meiri hl. (B. Sv.) gat þess, að eg hefði í hug, að innleiða nýtt »princip« til að afla landssjóði tekna, með því að lögleiða hér »monopol« (einokun) á vissum vörutegundum.

En eg bið háttv. framsögumann vel að gæta þess, að í fyrsta lagi hefi eg alls ekki hugsað mér að koma fram með slíkt frumvarp. Tolllaganefndin í heild sinni hefir að eins sett þann mögulegleika, og finst hugmyndin þess verð, að rannsaka hana nánar í milliþinganefnd. En nefndin hugsar sér ekki að innleiða slíkt nýmæli sem bráðabirgðafyrirkomulag — til reynslu — heldur að láta vera með að samþykkja það, þangað til menn þykjast vissir um, að það geti dugað til frambúðar. En þetta frv., sem hér liggur fyrir umsteypir með öllu fyrri »principum« í tolllöggjöf þessa lands, og á þó að eins að vera til bráðabirgða. Það er eins og kjaftshögg á öll »princip« í gildandi lögum um þetta efni, og þennan gagngerða umsteyping, alt þetta nýja, erfiða og umsvifamikla bákn á að setja á stofn, að eins til bráðabirgða!

Eg skal ekki fara frekari orðum um þetta, en vil þó endurtaka það, að slá megi því föstu, að ekki sé enn þá búið að gera grein fyrir því á hverju flokkaskipunin sé bygð, og heldur ekki, hvort nokkurt vit sé í áætluninni um tekjurnar, af því að ekki eru til hér á landi þær skýrslur, sem hægt er að byggja á í þessu efni. Það getur alt eins verið, að tekjurnar nemi ekki meiru en ? eða minna af því, sem styðjendur þess telja, og er þá til lítils barist. Eg verð að segja það, að mér er ómögulegt að verjast þeirri hugsun, að ástæðan fyrir því, að þetta mál er gert að flokksmáli hér í deildinni, sé ekki beint sú, að útvega landssjóði tekjur, heldur muni annað undir búa jafnframt, ef frv. skyldi nú falla í Ed. eða daga þar uppi.