21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

120. mál, farmgjald

Sigurður Sigurðsson; Það er út af athugasemdum hv. 1. þm. G.-K.(B. Kr.) að eg vil segja nokkur orð. Það sem hann var að tala um metramálið í sambandi við brtill. mína, hlýtur að vera bygt á misskilningi. Metramálið er lögákveðið og eftir næstu áramót eru allir skyldir að nota það. Það er því sjálfsagt að taka tillit til þess, þegar samin eru ný lög. Benda má líka á það, að í Noregi er metramálið notað og í Danmörk er frumv. á leiðinni, er fyrirskipar þar metramálið. Að öðru leyti má geta þess, að þó að hingað kunni að flytjast viður, reiknaður í teningsfetum, eða eftir öðru máli, þá er ávalt fljótlegt að breyta því í metramál. Þessar athugasemdir þingm. geta því ekki átt við till. mína eða hnekt henni.

Að því er kolin snertir eða gjaldið á þeim, sem till. gerir ráð fyrir, þá er þess að gæta, að þetta gjald er svo lágt, aðeins 50 aurar af hverri smálest, að það hlýtur að muna mjög litlu á útsöluverði þeirra, það getur naumast munað meiru en 10—12 aurum á hvert skippund. En landssjóðinn munar um þetta gjald, þó að það sé ekki hærra. Fyrir hann er það 30 þús. kr. tekjuauki. Þetta lága gjald á kolunum mælir því með till. minni en ekki á móti.

Að öðru leyti skal eg taka það fram, að í till. minni eru undanþegnir gjaldinu flestar sömu vörutegundirnar og í frv. Bækur eru þó ekki undanteknar, og sé eg heldur ekki neina ástæðu til þess að undanþiggja þær gjaldinu.

Þar sem sami háttv. þm. gat þess, að flokkaskifting varanna í frv. ætti rót sína að rekja til þeirra aðfinninga og athugasemda, sem komið hefðu fram gegn farmgjaldsfrv. á síðasta þingi, þá er til þess því að svara, að þessi flokkaskifting hefir mætt meiri mótmælum og aðfinningum nú, heldur en það frumv. gerði þá. Flokkaskiftingin í frumv. er svo handahófsleg og ruglingsleg, að hún gerir það mjög óaðgengilegt. Og það sannast, að það verður miklum örðugleikum undirorpið, að framkvæma þessi lög réttlátlega og samkvæmt tilgangi sínum. Till. mín bætir mjög úr þessum verstu göllum frumv. og fyrir því ættu háttv. deildarmenn að samþykkja hana.