13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Jósef Björnsson:

Eg hefi beðið um orðið af því, að eg vildi ekki láta hjá líða að gera grein fyrir afstöðu minni til þess máls, er hér liggur nú fyrir til umræðu í deildinni.

Umræður hafa farið nokkuð aðra leið en eg hafði við búist og tel rétt vera, eftir því sem málinu horfir við nú. Háttv. framsögum. gat þess, að tillaga nefndarinnar væri í þrem liðum. Eftir efni tillögunnar er það ljóst, að svo er, en liðirnir eru þessir: 1. að deildin skorar á landsstjórnina að sjá um, að tekið verði við Kristjáni Jónssyni sem gæzlustjóra. 2. að honum verði greidd gæzlustjóralaun sín frá 1. des. 1909. 3. að honum verði endurgoldinn allur sá kostnaður, er hann hefir haft af bankamálinu og af því að halda uppi rétti sínum og hinnar háttv. efri deildar. Eg lít svo á, að kjarni tillögunnar sé 1. liður. Það er auðsætt, að það er innsetningin, sem er aðalatriðið í því sem hér liggur fyrir. En umræður hafa farið í alt aðra átt. Þær hafa snúist um fortíðina, en ekki um framtíðina. Þær hafa verið saga málsins frá byrjun og til þessa dags, verið sókn og vörn fyrir sekt og sýknun landsstjórnarinnar og bankastjórnar Landsbankans, sem nefndin þó kannast við í áliti sínu að ekki sé enn fullrannsakað mál, en ekki nema lítið um það, hvað réttlæti þessa tillögu. Eg sé ekki, að hinar miklu umræður hér snerti hana mikið. Þegar litið er á nefndarálitið, sem á sinn hátt er rækilegt og vel frá gengið að mörgu leyti, sést, að það er ástæðan til, að umræðurnar hafa farið á þessa leið. Það eyðir miklum tíma og miklu rúmi til að rekja sögu málsins, hvernig rannsóknarnefndin hafi verið skipuð, hverjar sakir hún hafi borið á Landsbankastjórnina og hvernig frávikningin hafi farið fram. Eg lít svo á, sem þetta atriði hefði mátt liggja fyrir utan nefndarálitið og umræðurnar. Þetta var rækilega rætt og rakið við umræðurnar hér í deildinni um skipun nefndarinnar til að rannsaka gerðir landsstjórnarinnar í Landsbankamálinu og var ekki ástæða til að taka það upp aftur.

Eg verð að líta svo á, sem hér sé um fremur einfalt mál að ræða, að því er kemur til innsetningarinnar. Það var bent á það af háttv. þingm. Strand. (A. J.) að málið ætti sér bæði formhlið og „reella“ hlið. Hér er að líta á formhliðina eða hvernig verði sem bezt leyst úr ástandi því, er nú á sér stað um gæzlustjóra Landsbankans. Aðalþungi málsins, að því er mér virðist, er það, sem ræðir um neðst á 4. blaðsíðu og efst á 5. blaðsíðu nefndarálitsins og niður á hana og fjallar um formhlið málsins. Þessi kafli hefði mátt vera fyllri, því hann einn kemur þingsályktunartillögunni verulega við. Ástandið, sem nú er, er öllum ljóst. Þeir gæzlustjórar, er nú eru, eru skipaðir á annan hátt en lög gera ráð fyrir. Þetta er orðið svo fyrir „viðburðanna rás“, að þeir geta ekki talist löglegir gæzlustjórar.

(L. H. B.: Heyr!)

En það er ekki skemtilegt ástand, er játa verður um, að það sé fyrir utan landslög og rétt. Hvað á nú að gera, hvernig á að ráða bót á þessu?, er spurningin. Og hér er eg kominn að því, sem er kjarni málsins, hvort setja eigi þann gæzlustjórann aftur í sæti sitt, er háttv. þingdeild hefir kosið til að gegna þessu starfi, eða hvort það á ekki að gerast. Þegar ræða er um þetta, lít eg svo á, sem hér þurfi eigi að tala um, hvað landsstjórnin hafi gert í þessu máli eða hvað gæzlustjórarnir hafi gert, hver sekur sé eða sýkn, og á það legg eg engan dóm, heldur þurfi að athuga, hvernig hnúturinn verði sem bezt leystur. Nú er það tekið skýrt fram í nefndarálitinu, bæði áliti meiri og minni hlutans, að þingkjörnu gæzlustjórarnir hefðu verið settir í sæti sín í ársbyrjun 1910, ef stjórnin hefði ekki þózt hafa ástæðu til að varna því, að svo yrði gert. Og þessi ástæða var álit og ummæli dönsku bankamannanna. Þessa ástæðu má telja fullsannaða, því að til er vottorð margra manna fyrir því, að þeir sögðu, að afleiðingin af því, ef gæzlustjórarnir væru endurskipaðir í sæti sín, yrði sú, að viðskiftasambandi Landsbankans við Landmandsbanken yrði slitið. Hæstv. ráðherra hefir og lýst því yfir í ræðu, að hann hafi ætlað sér að setja þá aftur í þessa stöðu sína, en hafi hætt við það af þessari ástæðu. Hann leit svo á sem Landsbankanum stafaði hætta af því. Út af þessu hefir háttv. nefnd, bæði meiri hlutinn og minni hlutinn, fundið ástæðu til að gera allmiklar athugasemdir. Meiri hlutinn heldur því fram, að óhætt hefði verið, að gæzlustjórunum væri fengin gæzlustjórnin aftur, þrátt fyrir það þótt viðskiftasambandi við Landmandsbanken yrði slitið. Hann telur Landsbankann mundu hafa getað greitt skuld sína að fullu sér að meinalausu, og finnur því þessa ástæðu stjórnarinnar léttvæga. Minni hlutinn telur aftur á móti augljóst, að Landsbankinn hefði eigi getað greitt skuld sína til „Landmandsbanken“ og slitið viðskiftum við hann, nema af því hefði stafað stór hætta fyrir Landsbankann. Minni hlutinn telur því þessa ástæðu fullgilda til þess að stjórnin varnaði því að gæzlustjórarnir tæki aftur við starfi sínu í bankanum.

En hvernig sem litið er á þessi atriði, þá verð eg að álíta, þegar miðað er við tillöguna sjálfa, að hér sé verið að deila um skeggið keisarans. Því að það er ekki um það að ræða hér, hvort það var óhætt eða ekki óhætt í janúar 1910 að setja gæzlustjórana í sæti sín í stjórn bankans. Sá tími stendur ekki nú. Hann stóð þá og það gat á þeim tíma verið fullgild ástæða fyrir stjórnina að standa á móti því, að þeir settust aftur í stjórn bankans, ef hún áleit það háskalegt fyrir landið. Jafnvel þó að stjórnin hefði litið svo á, að gerðir hennar væru á móti lögum, þá gat hún með fullum rétti talið sér skylt og sig neydda til að brjóta lögin, ef hún áleit að heill landsins væri hætta búin að öðrum kosti. En eg læt mig ekki varða um þessi atriði nú, af því að sá tími er löngu liðinn. Í dag hefi eg ekki heyrt neitt koma fram í umræðunum, hvorki frá hálfu meiri hlutans eða minni hlutans, í þá átt að það gæti stafað hin minsta hætta af því frá nokkurri hlið, þó að gæzlustjórarnir tækju nú aftur sæti sín í bankastjórninni. Eg hefi ekki heldur séð nefndina halda neinu slíku fram, og eg hefi ekki heyrt nein rök frá hæstv. ráðherra fyrir því, að nokkurt tjón gæti af því stafað nú. En úr því að allir verða að játa, að ástandið í Landsbankanum, eins og það er, sé ekki viðunandi vegna þess að það er fyrir utan lögin, og úr því að ráðherra var jafnvel þegar í janúar 1910 farinn að hugsa töluvert mikið um að setja gæzlustjórana inn aftur, til þess að koma löglegu ástandi á stjórn bankans, þá sé eg ekki annað en að nú sé ástæða til að flýta fyrir því að lögleg skipan komist á í þessu efni, því eftir 1. jan. 1910 hafa sakir ekki getað aukist á gæzlustjóranum, sem gæzlustjóra bankans. Þegar málið er skoðað frá þessari hlið, finst mér 1. atriði tillögunnar þannig vaxið, að það standi ljóst fyrir, að ekki sé nokkur hætta á ferð, þó að gæzlustjórinn sé nú settur inn í stöðu sína aftur; með því er stjórn bankans orðin löglega skipuð, og óneitanlega er ástæða til þess fyrir háttvirta þingdeild að vinna að því, að viðunandi ástand komist á í þessu efni.

Að því er snertir atriðið um innsetning gæzlustjóranna, þá hefir meiri hlutann og minni hlutann ekki greint á um það, að æskilegt væri að bæta úr því ástandi, sem nú er, en þá hefir að eins greint á um aðferðina. Minni hl. nefndarinnar telur það heppilegustu lausnina, að kjósa gæzlustjóra fyrir þann tíma, sem gæzlustj. ætti að eiga eftir að sitja í stjórn bankans samkvæmt kosningu deildarinnar á síðasta þingi. Aftur á móti vill meiri hluti nefndarinnar skora á stjórnina að setja gæzlustjórann, sem þá var kosinn, inn í stöðu sína aftur. En í sjálfu sér sé eg ekki betur, en að hér beri ekki eins mikið á milli og í fljótu bragði kynni að sýnast. Kosningin væri auðvitað bundin við þessa háttv. deild og ekkert er líklegra en að þeir háttv. deildarmenn, sem vilja skora á stjórnina að setja gæzlustjórann inn, mundu einnig kjósa sama manninn fyrir gæzlustjóra, ef sú aðferðin væri höfð, af því þeir skoða hann sem verandi löglegan gæzlustjóra. Lausnin á málinu yrði þannig alveg sú sama.

Eg skal áður en eg skilst við þetta atriði taka það fram, að mér finst langt frá því að nokkur dómur sé lagður á gerðir stjórnarinnar í þessu máli eða kveðinn upp nokkur úrskurður um sekt eða sýknun nokkurs manns, þó að þetta fyrsta atriði tillögunnar verði samþykt, að skora á stjórnina að setja gæzlustjórann í stöðu sína. Nefnd sú, sem skipuð hefir verið í þetta mál hér í deildinni, hefir lýst yfir, að rannsókn málsins verði haldið áfram. Hv. neðri deild hefir og skipað nefnd til að rannsaka Landsbankamálið. Þessi nefnd er nú að störfum. Og þá fyrst, er rannsókninni er lokið í báðum deildum, gæti þingið kveðið upp úrskurð sinn um það, hvort gerðir stjórnarinnar í málinu hafi verið réttmætar eða ekki. En það atriði liggur ekki fyrir hér nú, þó að umræðurnar í dag hafi snúist töluvert um það. Eg lít svo á, að innsetningin snerti ekki þessa hlið málsins — efnishliðina, heldur að eins formhlið málsins. Af þessum ástæðum get eg ekki, fyrir mitt leyti, séð neitt í vegi fyrir því að samþykkja 1. lið tillögunnar, sem hér liggur fyrir.

En tillagan er í fleiri liðum. Næsti liður hennar er þess efnis, að gæzlustjóra deildarinnar verði greidd laun sín frá 1. desember 1909. Að því er þetta atriði snertir, þá er það náskylt fyrra atriðinu og má segja, að það sé beint áframhald af því, úr því að hæstv. ráðherra hefir viðurkent það, að stjórnin hafi haft í hyggju að setja gæzlustjórann inn 1. janúar 1910, en að hann hafi að eins ekki séð sér það fært af sérstökum ástæðum. Í þessu liggur viðurkenning þess, þótt óbeint sé, að sakir á hendur gæzlustjóranum væru eigi svo þungar, að hann þess vegna mætti alls eigi eiga afturkvæmt í bankann. En þá sýnist það liggja í hlutarins eðli, að gæzlustjórinn eigi ekki, svo sanngjarnt sé, að bíða neinn halla, að því er launin snertir, við það, að hann ekki náði stöðunni fyrir þær orsakir, er honum gat ekki verið um að kenna, nema þá mjög svo óbeint. Þetta atriði er því ekki svo vaxið, að frekari rannsókn málsins geti hreyft mjög við því

En þegar kemur að 3. lið tillögunnar, þá virðist mér töluvert öðru máli að gegna. Þar er farið fram á, að gæzlustjóranum verði endurgoldinn útlagður kostnaður við sókn hans í þessu máli gagnvart ráðherra og bankastjórninni. Á bls. 6 í nefndarálitinu stendur þó, að gæzlustj. muni tæplega eiga heimting á þessu endurgjaldi að lögum. Þetta, að nefndin leggur til að hann fái þennan kostnað borgaðan, en álítur þó að hann eigi tæpast heimting á því að lögum, hlýtur að byggjast á einhverju sérstöku. Og þetta sérstaka er líka að finna undir eins í næstu línu, því að þar kemur fram, að nefndin byggir tillögu sína um endurborgun kostnaðarins á því, að öll framkoma landsstjórnarinnar hér að lútandi sé fullkomið einsdœmi. Hér sýnist mér nefndin vera að fara fram á það, sem ekki er réttlátt. Hversu spakir sem þeir menn kunna að vera og mætir, sem í nefndinni sitja, þá finst mér þeir hér ætlast til of mikils af deildinni. Því að þótt nefndin líti svo á, að öll framkoma stjórnarinnar í þessu máli hafi verið fullkomið einsdæmi, þá er fyrst og fremst á það að líta, að þessi kostnaður hefir verið lagður út af frjálsum vilja. Gæzlustjórinn gat látið vera að leggja út í það mál, sem bakað hefir honum þenna kostnað. Vitanlega heldur hann því fram, að hann hafi gert það til þess að halda uppi rétti deildarinnar jafnt og sínum rétti. En eg vil benda hinni háttvirtu deild á, að þetta atriði er svo nátengt fullkominni lokarannsókn á málinu, að eg get ekki lagt neinn dóm á það, hvort gæzlustjórinn á, að svo stöddu máli, að fá þann úrskurð deildarinnar, að réttlátt sé að þessi kostnaður verði endurgoldinn úr landssjóði, því síður sem eg hefi ekki haft tök á að kynna mér öll hin nýfengnu gögn í þessu máli, sem nefndin hefir haft fyrir sér. En úr því að eg er farinn að minnast á þetta orð nefndarinnar: „einsdæmi“, þá vildi eg tala lítið eitt nánara um það áður en eg hætti.

Það er í sjálfu sér satt, að það er margt í þessu máli frá byrjun, sem mætti kalla einsdæmi. Nefndin kallar framkomu stjórnarinnar „einsdæmi“. En þegar frávikningin hafði farið fram og farið var að flytja þjóðinni út um land gögnin í þessu máli og fréttirnar, frá báðum hliðum, þá held eg því fram, að komið hafi upp eitt af þessum „einsdæmum“. Og það einsdæmi var það, að blöð höfuðstaðarins, frá báðum hliðum, gengu svo á sannleikann, og komu þannig fram í heild sinni, að með fullum rétti mátti kalla einsdæmi. Því að þess er ekki að dyljast, að þau höfðu þær fréttir að flytja þjóðinni um þetta mál, að hver maður með óbrjálaðri skynsemi hlaut að sjá, að sannleikanum var víða mjög svo misboðið. Og það vakti réttlátan viðbjóð á blöðunum hjá mörgum mætum manni, sem von var í svo viðkvæmu máli sem þessu, að þau skyldu ekki geta flutt nokkurnveginn sannar og óhlutdrægar sagnir. Því betur er það ekki oft sem blöðin hafa komið svo vítavert fram, sem í þessu máli, en í þetta sinn mátti framkoma þeirra sannarlega kallast einsdæmi. — En hér skal eg líka benda á annað, sem frá mínu sjónarmiði er „einsdæmi“. Nefndin, sem um þetta mál fjallar hefir játað, að þessi krafa gæzlustjórans sé hæpin að lögum. Og hún hefir einnig játað að rannsókn málsins sé ekki lokið. Samt sem áður leggur meiri hlutinn til að krafan sé tekin til greina, og kostnaðurinn endurgoldinn úr landssjóði. En það þykir mér „einsdæmi“, að svo spakvitrir menn er þeir þykja, sem í nefndinni sitja, skuli vilja kveða þannig upp það, sem verður að kallast úrskurður í málinu, áður en rannsókninni er lokið. En í því liggur dómur eða úrskurður, að þessi kostnaður skuli greiddur. Og þessi dómur er kveðinn upp áður en nokkur tillaga er komin fram um sekt eða sýknun nokkurs í þessu máli. En hversu vissir sem nefndarmennirnir þykjast vera um það, að gæzlustjórarnir standi að lokum hreinir og sýknir saka í málinu, þá verður því ekki neitað, að þetta er ekki sannað svo lengi, sem rannsóknin ekki er til lykta leidd. En það ætti að vera ráðandi um það, hvort ástæða væri til að greiða gjald, sem hæpinn réttur væri til að lögum. Þessu síðasta atriði tillögunnar get eg því ekki með nokkru móti verið með, þótt eg geti greitt atkvæði með fyrsta atriðinu. Þess vegna vil eg taka það fram, að ef bera á tillöguna upp í einu lagi, þá mundi eg ekki geta greitt neitt atkvæði. Eg mundi, sannfæringar minnar vegna, vilja greiða atkvæði með fyrsta lið, en sömuleiðis sannfæringar vegna ekki geta greitt atkvæði með síðasta atriðinu, með því að eg lít svo á, að þá væri eg með atkvæði mínu að fella dóm í órannsökuðu máli.