10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1545 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

18. mál, sóknargjöld

Skúli Thoroddsen:

Eg hefi komið fram með tvær breytingartillögur, en þær hafa ekki fundið náð fyrir augum hins háttv. framsögumanns meiri hlutans.

Önnur till. lýtur að því að vernda ellina og æskuna, en hin lýtur að því að vernda persónufrelsi og trúfrelsi einstaklingsins. Fyrri tillagan fer fram á að breyta aldurstakmarkinu úr 15—75 ára og í þess stað komi 16—60 ára. Það er ekki rétt að láta unglinga gjalda fult gjald í þessum efnum og það er óeðlilegt, því unglingar hafa oft lítinn eða alls engan áhuga á kirkjumálefnum og það er óeðlilegt að láta þá inna þessi gjöld af höndum, fyr en þeir hafa öðlast persónulegan myndugleika, en honum ná þeir ekki, fyr en þeir eru 16 ára. Það á líka að taka vægara á unglingum en fullorðnu fólki. Hitt er ósanngjarnt, að taka jafn há gjöld af nýfermdum unglingum og fullorðnu fólki. Sama er að segja um þá, sem orðnir eru 60 ára gamlir. Flestir eru þá farnir að bila til vinnu og hafa einnig goldið mikið, svo það er sanngjörn krafa að ætla þeim lægri gjöld. Það er næsta hlægilegt, að það skuli standa í lögunum, að þeir, sem eru 75 ára gamlir skuli vera gjaldi undanþegnir. Hvað margir ná svo háum aldri? Jú, það kemur fyrir stöku sinnum.

Hin tillaga mín lýtur að því, að vernda persónufrelsi og trúfrelsi og hefir það oft borið á góma hér í deildinni, en ekki fengið góðan byr. Eg get ekki horfið frá því, að mér finst það hart, að gjaldskylda þá, sem ekki geta felt sig við kenningu þjóðkirkjunnar.

Háttv. framsögumaður hélt það mundi verða til þess, að menn hópum saman mundu fara úr þjóðkirkjunni. Þá vil eg heldur, að þessi upphæð sé greidd úr landssjóði, en að þessum mönnum sé gert rangt til. Það er heldur ekki nema í svip, að landssjóður mundi tapa á þessu, því þegar ekki væri þörf fyrir svona marga presta, eins og nú eru, af því menn væru komnir úr þjóðkirkjunni, þá mætti fækka prestunum.

Eg hefi svo ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þetta, en vona menn taki þessum tillögum mínum vel.