10.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1546 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

18. mál, sóknargjöld

Jón Jónsson 1. þm. N.-Múl.:

Eg sé, að nefndin hefir breytt frv. nokkuð og felli mig ekki við nema sumar þeirra. Eg bjóst við, að ýmsir mundu ekki sætta sig við gjaldmátann, eins og hann er, einkum í kauptúnum, því að þar hefir einkum verið óánægja með lögin og er það eðlilegt, því það er óeðlilegt, að ríkir kaupmenn gjaldi ekki meira en fátækir daglaunamenn og embættismennirnir sama gjald og tómthúsmenn.

Þótt við fellum okkur illa við persónugjöldin, þá höfum við viljað fara milliveg í þessu máli. 2. brtill. hjá okkur undanskilur þá gjaldi, sem ekki eru í þjóðkirkjunni. Okkur finst það ekki viðeigandi að skylda alla til að greiða til þjóðkirkjunnar, hvort þeim er það ljúft eða leitt. Því hvað varðar þjóðfélagið um það, hvaða trú maðurinn hefir. Hann á að mega frjáls sigla sinn eiginn sjó í því efni. Því sú ástæða, að margir muni gera sér leik til þess að segja sig úr þjóðkirkjunni, hún er barnaleg.

Breytingartillögur háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fara í frjálslega átt og felli eg mig mjög vel við þær.

Fyrir skömmu lá hér á þinginu fyrir frumvarp um, að þessi gjöld rynnu til skólanna, en það varð ekki að lögum. Mér finst engin ósamkvæmni í því, að gengið yrði að þessu frumvarpi. Þykir mér lítt hugsanlegt, að þingmenn verði á móti því.