12.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1548 í B-deild Alþingistíðinda. (1917)

18. mál, sóknargjöld

Hannes Hafstein:

Háttv. þingm. S.-Þing. (P. J.) sagði, að breytingartillaga sú, sem eg hér ber fram, kæmi í bága við frumreglu prestlaunalaganna. Hér er ekki farið fram á að breyta frumreglu þeirra laga. Hér er einungis farið fram á að breyta 12. gr. þeirra. Það getur ekki verið frumregla þeirra laga, að svifta menn lögákveðnum tekjum þeirra, heldur hlýtur hitt að vera sem næst frumreglu þeirra, að enginn skuli á ranglegan hátt sviftur tekjum sínum. Eg skal kannast við, að frá algerlega formlegu sjónarmiði mætti segja, að í samræmi við þetta ætti að lækka uppbótina hjá þeim, það sem síðustu árstekjur voru lægri en 5 ára meðaltal. En í fyrsta lagi er ekki brotinn réttur á neinum, þótt hann fái dálítið meira, en honum bæri eftir einhverjum nýjum lagareglum, og í öðru lagi mun fólksfækkun hvergi eða því nær hvergi hafa átt sér stað á þessu tímabili. En eftir tillögu minni koma breytingar, stafandi af verðlagsskránni, ekki til greina.

Háttv. þingmaður sagði, að ef gengið væri inn á breyt.till. mína, þá ættu prestarnir stöðugt heimtingu á að fá hækkun á hækkun ofan, eftir því sem fjölgaði í sóknum þeirra. En þetta er beint ofan í orð tillögunnar, sem er miðlunartillaga, er að eins gengur út á það, að gera prestana ekki lakar setta en þeir voru, þegar lagabreytingin komst á, og hygg eg það sé sanngjarnt. Þessi miðlun mundi firra báða málsaðila málaþrasi, sem mundi baka prestlaunasjóðnum meiri útgjöld, en þessa litlu hækkun á uppbót einstaka brauðs.

Vona eg því, að háttv. deild samþykki þessa breyt.till.