07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1571 í B-deild Alþingistíðinda. (1933)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Einar Jónsson:

Það eru að eins örfá orð um fyrri skoðunina, því að satt að segja býst eg við, að hinum lærðu embættismönnum, sem hér eiga sæti, fari að leiðast að hlusta á okkur bændurna.

Eg skal fúslega taka undir það með háttv. þm. Dal. (B. J.), að þeir einir muni valdir skoðunarmenn, sem líklegt er, að þekki vel til allra jarða í sveitinni, en þetta er ekkert aðalatriði. Menn verða að taka tillit til þess, að bændur álíta með þessum skoðunarferðum sjálfstæði sitt skert við slík umráð, og það ekki af lítilsvirðingu, heldur af því, að þeir hafa einu sinni fengið það í sig, að vera sjálfráðir með búskap sinn. Þeir eru komnir á þær tröppur, að þeir setja ekki svo á, að þeir komist í vandræði, nema sérstök harðindi eða óáran beri að höndum. Og komi það fyrir, getur seinni skoðunin komið að góðum notum, til að komast fram úr vandræðunum. Eg er ekki sammála háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) í því, að fyrri skoðunin sé nauðsynlegur grundvöllur undir seinni skoðunina. Það er langur tími frá október til gjafa og algengt að bændur fara hvað heyásetning snertir, eftir því, hvernig tíðin hagar sér í október og nóvember og því lítil líkindi til, að fyrri skoðunin komi að nokkrum notum. Líka ber þess að gæta, að hreppsjóðir myndu horfa í þann kostnað, sem af fyrri skoðuninni leiddi og mundi nema alt að 70—80 kr. Litlir hreppssjóðir myndu finna til þessarar aukabyrðar, einkum ef það er álitið óþarfi. Hvað orð háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) snertir, að seinni skoðunin kæmi að engum notum í maímánuði, þá er það ekki allskostar rétt. Ef vetur er mjög harður, og menn heylausir um það leyti, geta framkvæmdir, í því að afla fóðurs, einatt komið að miklu gagni, einkum fyrir kýr og hesta, en venjulega er þó fénaður kominn á jörð þá.