07.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

21. mál, búpeningsskoðun og heyásetning

Sigurður Sigurðsson:

Eg skal ekki vera langorður. Það er að eins viðvíkjandi ummælum hv. 2. þm. Rang. (E. J.). Mér virtist hann, að því þetta mál snertir, miða alt of mikið við sitt eigið hérað, þar sem minni þörf er á þessum lögum en víða annarstaðar. Ef maður hefði Suðurland að eins fyrir augum í þessu efni, gæti eg verið honum samdóma um, að lögin væru ekki bráðnauðsynleg. En það vill nú svo til, að fleiri sýslur eru á landinu en þessar, og í mörgum þeirra er þörf á lagaákvæðum um þetta efni.

Út af ummælum háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) vil eg leyfa mér að víkja þeirri spurningu til hans, hvort ekki muni þörf á slíkum lögum í hans sýslu, og í öðru lagi vil eg beina þeirri spurningu til hans, hvort sektarákvæðum horfellislaganna hafi verið beitt þar síðastlið. ár.

Eg álít, að 3. gr. frumv. ákveði, þó óbeinlínis sé, nægilega sekt fyrir þá menn, er verða heylausir. Frumv. miðar yfirleitt að því, að bæta galla horfellislaganna, og gera þau svo úr garði, að þau komi að sem mestum notum. Eg tek það ekki nærri mér, þótt háttv. 2. þm. Húnv. (B. Sv.) sé að tala um, að eg hugsi ekki mikið um að spara tímann. Eg sé ekki eftir tímanum, þá er um slíkt nauðsynjamál og þetta er að ræða. Eg sé miklu meira eftir honum, þegar verið er að skrafa um allsendis óþörf mál, er engum koma að gagni. Það er hálf kyndugt að heyra bændur telja eftir þann tíma, sem varið er til þess að ræða um velferðarmál landbúnaðarins. Þeir hinir sömu ættu því að spara sér sínar óþörfu ræður, er miða að því að spilla góðu máli.