13.03.1911
Efri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

10. mál, rannsókn bankamálsins

Jens Pálsson. (Vék úr forsetastól):

Eg finn ástæðu til að gefa skýringu á ummælum háttv. 5. kgk. þm. að því leyti sem þau snertu mig í sambandi við burtför hinna dönsku bankastjóra. Eg skýrði frá því fyrir nefndinni, að eg hefði verið á ferð hér inn frá nokkrum tíma eftir að frávikning gæzlustjóranna hafði átt sér stað, og eftir að hinn minnisstæði fundur eða fólksuppþot hafði verið, það mun hafa verið snemma á jólaföstunni. Eg hitti þá ráðherra að máli, og fór frá honum með þeirri von, er mér var þá hugþekkust, að gæzlustjórarnir gætu orðið settir inn í bankann strax eftir nýárið. Eg hafði fyrir hátíðirnar annríki mikið og fór ekki inneftir hingað aftur fyr en á gamlársdag. Þegar eg fyrir skömmu var fyrir rannsóknarnefndinni, mundi eg ekki daginn, hvort það var 29., 30 eða 31. des., en heimilisfólk mitt mundi, að það var 31. des. Í þessari ferð hitti eg ekki ráðherra B. J., enda hafði þá að eins stutta dvöl í bænum; þó heimsótti eg og átti tal við minn gamla vin og skólabróður, háyfirdómara Kristján Jónsson, og lét í ljósi við hann von mína um, að þeir gæzlustjórarnir mundu verða settir inn í bankann eftir nýárið. En milli þess að eg hafði talað við hæstv. ráðherra og háyfirdómara Kristján Jónsson höfðu dönsku bankastjórarnir talað við ráðherra og skýrt honum frá, hverjar tillögur þeir mundu gera til stjórnar Landmandsbanken. En um það hafði eg enga hugmynd fyr en löngu löngu síðar.

Svona er réttast skýrt frá þessu, og mér þótti rétt að taka þetta fram til skýringar, svo enginn viltist á skýrslu hins háttv. 5. kgk.