22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1582 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Þorleifur Jónsson:

Eins og sést af nefndarálitinu skrifaði eg undir það með fyrirvara og var aðalágreiningurinn sá, milli mín og ýmissra annara nefndarmanna, að eg vildi að eftirlitið með útrýmingu kláðans yrði að meiru leyti greitt úr landssjóði, þar sem ætlast er til, að fjáreigendur taki á sitt bak allan kostnað við baðlyfin, auk annarar íþyngdar, sem tvíböðun hlýtur að leiða af sér fyrir fjáreigendur.

Nefndin, eða meiri hluti hennar, vildi skifta eftirlitskostnaðinum niður á hreppafélög, sýslufélög og landssjóð, þannig að landssjóður bæri helming af kostnaði við kláðalækna, en sýslurnar helminginn, og að hreppafélögin beri helming af kostnaði við baðara og landssjóður helming. Þessu var eg ekki samþykkur. Eg vildi ekki leggja neinn kostnað af þessu máli á hreppssjóðinn, og því hefi eg leyft mér að koma með brtill. á þgskj. 682, þar sem því er farið fram, að kaup baðara sé að öllu greitt úr landssjóði.

Þetta held eg að sé hyggilegra, þegar á alt er litið. Eg held, að það sé ekki hyggilegt að leggja neitt af þessum kostnaði á hreppasjóðina, þeir hafa nóga gjaldabyrði samt og ekki miklar tekjuvonir. Eins og eg tók fram áðan, er allmikil byrði lögð á fjáreigendur, þar sem ætlast er til, að þeir kosti 2 böð, og ekki nóg með það. Tvíböðun veldur fóðureyðslu miklu meiri en baðverðinu nemur. Því fyrst og fremst er ófært annað en að hýsa fé og gefa meðan á böðunum stendur og svo þykist eg þess fullviss, að þessi hrakningur og handkröm hvað ofan í annað, með stuttu millibili, hái fénu svo, að það verði töluvert þyngra á fóðrum, þurfi meira að gæða við það en ella. Auk þess er æðimikil vinna og tímatöf, sem í þetta gengur á hverju heimili. Þess vegna leggja lögin mönnum nægilega þunga byrði á herðar, þótt ekki væri bætt við eftirlitinu að mestu leyti, eins og nefndin vill gera. Mér virðist því, að þar sem hér er að ræða um algerða útrýmingarböðun um land alt, sem kemur jafnt niður á réttlátum og ranglátum, ef svo má að orði kveða, kemur niður eins á þeim héruðum, þar sem um engan kláða er að ræða, eins og hinum, þá virðist nægilegt að leggja baðlyfjakostnaðinn og alt umstangið, sem af böðunum leiðir á hvern einstakan fjáreiganda.

En aftur á móti er eðlilegast, að sem mestur hluti eftirlitskostnaðarins, sé greiddur úr hinum sameiginlega sjóði þjóðarinnar, landssjóðnum. Og það er líka annað, sem hér kemur til greina. Ef hrepparnir ættu að bera þetta að miklu leyti, þá er hugsanlegt, að böðunum yrði flaustrað meira af en ella, hraðað fram úr hófi, til þess að spara kostnaðinn.

Nú mætti að vísu hugsa sér hitt, að ef landssjóður ætti að kosta þetta, þá mundu menn aftur á móti draga alt sem mest á langinn til þess að ná sem mestum peningum. En á því er ekki svo mikil hætta, fjáreigendur munu kosta kapps um, að þetta taki sem fyrst af og ekki líða neitt hangs eða óþarfa seinlæti í verkinu því að það er þeim kostnaðarauki. Aðalatriðið er auðvitað það, að engin svik eða undanbrögð eigi sér stað. Vænti eg því, að þegar menn íhuga þetta alt, þá hallist háttv. deild að tillögu minni.

Eg get ekki látið vera að geta þess um leið, að þótt eg gerði eigi verulegt ágreiningsatkvæði í nefndinni um aðalmálið, að fara nú að leggja út í algerða útrýmingarböðun á ný, þá dansaði eg þar hálf nauðugur. Svo býst eg við að kunni að fara fyrir fleirum.

Þegar síðasta hríðin var gerð að fjárkláðanum — þessi, sem Myklestad stóð fyrir — þóttust landsmenn hafa himinhöndum tekið, og þóttust vitrir menn vissir um, að nú væri yfirstíginn þessi skuggavaldur sauðfjárræktarinnar og hrósuðu mjög happi og fáruðust ekki um, þótt útrýmingin, sem átti að vera, kostaði stórfé. Það er nú stutt síðan þetta var, ekki nema örfá missiri, og þó er nú svo komið, þrátt fyrir allar þrifabaðanir og lækningakák, sem reynt hefir verið síðan, að nú segir dýralæknirinn hér í Reykjavík, að eigi séu nema örfáar sýslur kláðalausar og dreg eg ekki í neinn efa, að hann fari þar með rétt mál, því frekar sem all-ægilegar kláðafréttir hafa borist hingað til þingsins síðustu dagana, bæði af Austurlandi og sérstaklega úr Norðurlandi.

Út af þessu öllu er nú von til, þótt menn verði að spyrja, hvort takast muni að útrýma kláðanum algerlega, hvort nokkurntíma sé hægt að treysta því, að sú atlaga verði gerð að honum, að víst sé, að síðasti maurinn verði drepinn.

Dýralæknirinn heldur því nú fram, að engin von hafi verið til þess með aðferð Myklestads, hér dugi ekki minna en tvenn böð með stuttu millibili, en með því fyrirkomulagi telur hann góða von um algerða útrýmingu, ef öllum fyrirskipunum sé samviskusamlega hlýtt. Og mér fór nú eins og fleirum í nefndinni, að mér þótti of mikill ábyrgðarhluti að setja mig upp á móti ráðum dýralæknis í þeirri von, að þau kunni að hrífa og þessum vágesti þar með útrýmt og varð þá að ráði að leggja út í fullkomin útrýmingarböð. En nokkuð er það hart aðgöngu fyrir héruð, þar sem aldrei hefir verið kláði, eins og er t. d. mitt hérað og ýms önnur, því þótt margir séu teknir að baða fé sitt sjálfir einu sinni á ári þrifabaði, þá er slíkt ekki saman berandi við þessi útrýmingarböð, sem eru stór skattur á hvern fjáreiganda bæði beinn og óbeinn.

En þótt eg og aðrir geri nú þessar athugasemdir um kostnaðinn, þá virðist nú ekki um annað að gera, en leggja út í þetta og fylgja fast fram ráðum þess manns, sem við treystum bezt til þess að hafa vit á þessu, og hugga sig við það, að það var ekki hann, sem bakaði oss vonbrigðin síðast, heldur var þá einmitt gengið fram hjá honum og annar tekinn. Það er fyrst, ef kláðinn lifir eftir sem áður, eftir þessa böðun, að taka verður til annara ráða, þegar búið er að reyna báða mennina, en við skulum vona, að ekki komi til þess.

Að endingu vil eg enn fastlega mælast til þess, að háttv. deild samþykki breyt.till. mína, því að eg álít það miklu máli skifta.