22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1951)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Einar Jónsson:

Eins og öllum er kunnugt, hefir fjárkláðinn lengi verið hinn mesti vágestur í landi voru, og þegar vér íhugum, hve geysimikið tjón og kostnað hann hefir bakað oss, þá er sízt furða, þótt vér viljum flest til vinna, ef vér gætum losnað við hann. Því er það og, að þetta ráð er nú tekið. Eg þori nú ekki að setja mig beint upp á móti meðnefndarmönnum mínum, enda þótt eg verði að játa það, að eg hefi litla trú á því, að tilraunin muni hepnast, jafn vel þótt fylgt væri ráðum dýralæknis í öllu, og veldur það mér eigi lítillar áhyggju. Ef það sem sé á að vera víst, að þessi tvenn böð eigi að vera ugglaus, þá má engin kind komast undan nokkursstaðar á landinu, og nú sanna dæmin einmitt, að altaf getur eitthvað sloppið undan, og þá er aldrei víst, nema það fé kunni einmitt að hafa kláða. Það eru dæmi til þess á einstöku jörðum, að þar næst aldrei allt féð saman í einu, og í mínum hreppi er það svo á ýmsum jörðum, að féð mundi ekki nást saman, þótt 20 menn væru sendir af stað í smalamensku. Það er líka dýr aðferð, þetta, þar sem féð gengur annars altaf úti og enginn kláði er. Eg er þess vegna als eigi óhræddur við að leggja út í þetta, þótt við gerum það nú, vegna þess að sá maður, sem fróðastur ætti að vera í þessum sökum, dýralæknirinn, fullyrðir að svona verði það að vera. En nú segir hann jafnframt, að kláðinn sé orðinn svo hægfara og máttlítill, að mér skilst, svo sem hann muni nú ekki vera líkt því eins hættulegur og áður, og ánægðastur hefði eg verið með það, að almennt þrifabað hefði verið fyrirskipað, og svo tvenn böð á þeim svæðum, þar sem kláðinn er. Þetta þótti líka þeim háttv. þm. hyggilegast, sem líklega er kláðafróðari en við allir hinir, en það er háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), og í sama streng tók háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.). Tvenn böð eru kostnaðarsöm og koma afarhart niður á útigangsjörðunum. Það eykur fóðureyðslu og rýrir hold fjárins, að baða það þannig tvisvar á köldum vetri og reka það svo aftur út á gaddinn. Eins og eg sagði áðan, vil eg ekki setja mig beint á móti þessu, en eg vil, að þess sé vandlega gætt, hvort ekki muni vera nógu trygt að viðhafa rækileg og góð þrifaböð.

En til þess að eg fari ekki alveg fram hjá kostnaðinum, þá vil eg þar taka undir með háttvirtum þm. A.-Sk. (Þ. J.), vil að landssjóður borgi sem mest af baðkostnaðinum, og að ekki sé gengið inn á þá braut, sem frumvarpið fór fyrst fram á.