22.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1586 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

139. mál, útrýming fjárkláðans

Framsögum. (Hálfdan Guðjónsson):

Eg hefi litlu við það að bæta, sem eg sagði áðan, en skal þó geta þess, að eg gleymdi að minnast á það áðan til áherzlu við það hve nauðsynlegt það er, að ráðast nú þegar í nýjan leiðangur gegn kláðanum, að eftir það er nefndarálitið var samið, barst nefndinni skýrsla um það, að kominn væri upp kláði á ekki færri en 12 bæjum í Skagafirði austan Vatna. Það hafði þó verið litið svo á, að lítið sem ekkert bæri á kláða á öllu hinu stóra svæði frá Þjórsá til Héraðsvatna. En meðan nefndin sat að vinnu sinni bárust einmitt kláðafregnir úr Múlasýslum og síðan þessar úr Skagafirði. Þetta gefur því ástæðu til að ætla, að engin trygging sé fyrir því, að nokkurt einasta hérað á landinu sé áreiðanlega laust við kláðann.

Eg er samdóma háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), að því er snertir kostnaðinn, og eins hitt, að ekki sé full vissa fyrir því, að síðasti kláðamaurinn verði dauður eftir þessi tvö böð, en líkurnar eru þó svo miklu meiri fyrir því en áður, að eg fyrir mitt leyti hika ekki við að ganga inn á þá braut Og eg skal bæta því við, að fari nú svo slysalega, að tvenn böð verði ekki nóg, þá hjálpar ekki að leggja árar í bát fyrir því. Þá koma dagar og þá koma ráð. Þá má reyna fleiri ár í röð, og það er jafnvel álitamál, hvort ekki ætti á næsta þingi, þegar menn hafa séð hvernig þetta fer, að skipa fyrir um árlega böðun í 5 ár t. d. á kostnað fjáreigenda. Þetta gæti komið í staðinn fyrir þrifabað, sem ætti að vera almenn og sjálfsögð búregla hjá öllum hvort sem er, og mundi þar að auk vera trygging fyrir algerri útrýmingu kláðans eftir nokkur ár.